*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 30. maí 2013 13:38

Lýður greiði tvær milljónir í sekt í Exista-máli

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Lýð Guðmundsson til greiðslu sektar vegna hlutafjárhækkunar Exista. Bjarnfreður var sýknaður.

Jón Aðalsteinn Bergsvein

Lýður Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Exista, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur til að greiða tvær milljónir króna í sekt í tengslum við 50 milljarða króna hlutafjárhækkun Exista síðla árs 2008. Lögmaðurinn Bjarnfreður Einarsson var sýknaður. Þeir voru báðir ákærðir fyrir brot á hlutafélagalögum og fyrir að hafa skýrt rangt og villandi frá hlutafjárhækkuninni. Hvorki Lýður né Bjarnfreður voru viðstaddir þegar dómur var kveðinn upp í málinu.

Lýður var stjórnarformaður Exista og tilkynnti Bjarnfreður um hlutafjárhækkunina þegarfélagið BBR keypti hlutabréf í Exista fyrir 50 milljarða króna að nafnvirði en greiddi einn milljarð fyrir. BBR var í eigu bræðranna Lýðs og Ágústar Guðmundsson. Þeir voru á sama tíma helstu eigendu Bakkavarar og Exista stærsti hluthafi Kaupþings. Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra úrskurðaði árið 2009 að hlutafjárhækkunin hafi verið ólögmæt. 

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í október í fyrra. Þeir voru ákærðir fyrir brot gegn hlutafélagalögum fyrir að hafa vísvitandi brotið gegn ákvæðum um greiðslu hlutafjár með því að greiða einn milljarð króna fyrir 50 milljarða. 

 Í ákæru í málinu kom m.a. fram að Lýsing hafi lánað fyrir hlutafjárhækkuninni en upphæðin aldrei komið inn í rekstur Exista. Sérstakur saksóknari krafðist þess í ákærunni að Bjarnfreður verði sviptur lögmannsréttindum í tengslum við málið. Hluthafar hafa krafist þess að Lýður stígi til hliðarsem stjórnarformaður Bakkavarar meðan á málarekstrinum stóð.