Bakkabróðirinn Lýður Guðmundsson, annar stofnenda Bakkavarar, veitti MP banka veð í húsi sínu við Starhaga í Reykjavík í febrúar og má hann hvorki selja, veðsetja það eða afsala sér nema með skriflegu leyfi bankans. Það sama á við um aðrar fasteignir hans sem skráðar eru í einkahlutafélagi hans GT 1, svo sem sumarhús í Fljótshlíð og íbúð við Hagamel í Reykjavík.

Þeir bræður Lýður og Ágúst keyptu nýverið 25% hlut á ný í Bakkavör. Greint var frá því í fjölmiðlum um síðustu helgi að þeir hafi gert Arion banka og lífeyrissjóðum sem eiga 75% hlut í Bakkavör tilboð í hlutina. Hluthafar eru ekki sagðir viljugir til að selja þeim hlutabréfin og telja tilboðið lágt. Þá hefur komið fram að menn undrist fjárhagslegan styrk bræðranna.

Fjallað er um málið í DV í dag. Þar segir að húsið sé tæpir 340 fermetrar og metið á 93 milljónir króna. Lýður færði húsið ásamt öðrum fasteignum sínum inn í einkahlutafélagið G1 22. október árið 2008. Félagið er í eigu annars félags, GT One Trust, sem skráð er á Bretlandi.

Samkvæmt uppgjöri GT 1 fyrir árið 2010 námu eignir félagsins 963 milljónum króna. . Bókfært eigið fé félagsins nam 752 milljónum króna. Á móti námu skuldir 261 milljón króna.

Í DV er haft upp úr þinglýsingu að að eignirnar í GT 1 séu veð vegna skuldbindinga sem félagið hafi gengist í eða muni gangast í við MP banka. Þá segir í þinglýsingunni að félag Lýðs muni ekki veita öðrum aðila en MP banka betri veðrétt í eignunum.