Bakkabróðirinn Lýður Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Exista, neitar því að hafa haustið 2008 brotið lög þegar félagið BBR keypti hlutabréf í Exista upp á 50 milljarða króna á nafnvirði en greiddi einn milljarð króna fyrir. BBR var í eigu bræðranna Lýðs og Ágústar Guðmundsson. Þeir voru á sama tíma helstu eigendu Bakkavarar og Exista stærsti hluthafi Kaupþings. Lýður kannast heldur ekkert við að endurskoðendur hjá Deloitte hafi ekki getað skrifað upp á hlutafjárhækkunina, að því er fram kemur á fréttavefnum Vísi.is . Vísir hefur jafnframt eftir Lýð að Deloitte og Fjármálaeftirlitið hafi lagt blessun sína yfir hlutafjárhækkunina.

Lýður og lögfræðingurinn Bjarnfreður Ólafsson eru báðir ákærðir fyrir að hafa skýrt rangt og villandi frá hlutafjárhækkun Exista. Aðalmeðferð málsins hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Við fyrirtöku málsins seint í apríl las Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, upp úr skýrslu sem tekin var af Bjarnfreði. Þar var haft eftir Bjarnfreði að ekki hafi gengið að greiða einn milljarð fyrir 50 milljarða hluti og hafi lögfræðistofan Logos, sem hann starfar hjá, ekki viljað gefa álit sitt á málinu.