Lýður og Ágúst Guðmundssynir, stofnendur Bakkavarar, hafa keypt hluti í Bakkavör fyrir meira en átta milljarða króna og eiga nú um 40% hlutafjár. Þeir eru stærstu einstöku eigendur félagsins. Hlutina hafa þeir keypt af fyrrum kröfuhöfum sem breyttu skuldum Bakkavör Group í hlutafé.

Greint er frá þessu í Markaðinum í dag. Á meðal seljenda eru LSR, þrotabú Glitnis og MP banki. Félög í eigu bræðranna hafa að undanförnu komið inn í landið með milljarða í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans sem nýttir hafa verið til hlutabréfakaupanna.

Fram kemur í Fréttablaðinu að á móti bræðrunum stendur blokk annarra kröfuhafa sem á rúmlega helming eignarhlut og neitar að selja þeim. Arion banki er þeirra stærstur með um 34% hlutafjár.