Bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir munu tapa allri eign sinni í Bakkavör Group, móðurfélagi rekstrarfélagsins Bakkavarar. Móðurfélagið mun á allra næstu dögum breyta kröfum sínum á Bakkavör í nýtt hlutafé. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag. Bræðurnir áttu að geta eignast allt að 25% hlut ef tækist að greiða kröfuhöfum fyrir mitt árið 2014.

Stærstu eigendur félagsins eru Arion banki, slitastjórn Glitnis, LSR, Gildi lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður verzlunarmanna. Heildarupphæð skulda Bakkavör Group námu um 64 milljörðum króna þegar nauðasamningar voru gerðir fyrir 2 árum síðan.

Í kjölfar þess að breyta kröfum í hlutafé verður félagið endurskipulagt. Þá ætla félögin líka að semja við veitendur sambankaláns upp á 380 milljónir punda, 77,7 milljarða króna, sem veitt var í byrjun árs 2011, og er á gjalddaga 2014, um að endurstilla gjaldfellingar- ákvæði í láninu sem þegar hafa tekið gildi. Auk þess mun Bakkavör Finance, sem gaf út 350 milljón punda, 71,5 milljarða króna, skuldabréfaflokk sem er á gjalddaga árið 2018 að sækjast eftir leyfi frá eigendum hans til að gera tæknilegar breytingar á útgáfunni svo að hægt sé að ráðast í endurskipulagninguna.