Rannsóknarskýrsla Alþingis er morandi í villum hvað varðar Exista, segir Lýður Guðmundsson, fyrrum stjórnarformaður félagsins, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Í grein sinni, sem ber yfirskriftinga „Óvissuferð“ sérstaks saksóknara“. segir Lýður fulltrúa sérstaks saksóknara iðulega hafa vitnað í skýrsluna við yfirheyrslur á sér nýlega. „Hvað við kemur Exista er skýrslan morandi í villum og röngum ályktunum og því frábað ég mér með öllu að þurfa sitja undir slíku rugli í yfirheyrslu,“ segir í greininni.

Lýður segir það fráleitt að hann hafi á nokkurn hátt gerst brotlegur við lög við rekstur VÍS, sem sérstakur saksóknari rannsakar nú, og segir hann embættið vera í óvissuferð. Sárt sé að fjöldi grandvarra samstarfsmanna hans liggi undir grun um glæpsamlegt athæfi sem ekki hafi átt sér stað.

Þá segir hann þá ásökun að hann hafi framið umboðssvik sem stjórnarformaður VÍS undarlega. „Mér finnst þessi ásökun galin enda var Exista eigandi alls hlutafjár VÍS og ég var stærsti eigandi Exista. Með því að gæta ekki hagsmuna VÍS hefði ég því skaðað sjálfan mig mest,“ segir Lýður.