Lýður Þór Þorgeirsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs Arion banka en frá árinu 2010 hefur hann starfað hjá Gamma Capital Management hf., fyrst sem sjóðsstjóri ýmissa fagfjárfestasjóða en frá árinu 2013 sem framkvæmdastjóri sérhæfðra fjárfestinga.

Fyrir þann tíma starfaði hann meðal annars fyrir Íslandsbanka og sem sérfræðingur í fyrirtækjaráðgjöf Arion banka. Lýður er með B.Sc. gráðu í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá MIT Sloan School of Management auk þess að hafa lokið löggildingu í verðbréfamiðlun.

Lýður tekur við starfinu þann 25. október. Þangað til mun Freyr Þórðarson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, áfram sinna hlutverki framkvæmdastjóra fjárfestingarbankasviðs eins og hann hefur gert frá 1. júlí. Höskuldur H. Ólafsson bankastjóri Arion banka segir í bréfi sem hann sendi til samstarfsfólks síns í bankanum að það sé ánægjulegt að geta ráðið Lýð Þór.

„Staðan var auglýst í fjölmiðlum um miðjan september og fjölmargar góðar umsóknir bárust, bæði frá fólki innan bankans og utan,“ segir Höskuldur. „Ég býð Lýð velkominn til Arion banka og vænti mikils af störfum hans með þeim öfluga hópi starfsfólks og stjórnenda sem fyrir er á fjárfestingarbankasviði.“