Lyfjaprófanir á lyfjaefni deCODE gegn hjartaáfalli eru sem stendur í fasa II, en sem kunnugt er gerði deCODE samning við Bayer um sérnytjaleyfi á lyfjaefni og hljóp þar með yfir mörg ár forklínískra rannsókna. Fasi II prófananna hófst í apríl og gert hefur verið ráð fyrir að hægt verði að klára þetta stig á aðeins 10 vikum. Það má því gera ráð fyrir að nú styttist í niðurstöður úr fasa II lyfjarannsóknanna sem er ætlað að mæla áhrif lyfjaefnisins á lyfjamörk sem talin eru auka líkur á hjartaáfalli. Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans.

Þar er ennfremur bent á að verði niðurstöður úr fasa II jákvæðar vonast deCODE til að geta farið í lokalyfjaprófanir, eða fasa III, í kjölfarið. Fasa III yrði ætlað að mæla hvort lyfjaefnið dragi úr líkum á hjartaáfalli í þeim sjúklingum sem tækju þátt í prófunum. Fyrirtækið hefur sagt að með nýjum aðferðum geti fasi III lyfjaprófananna, komist lyfið það langt, tekið um 18 mánuði.

"Gengi bréfa deCODE er nú $8,3 og hefur lækkað jafnt og þétt frá því í febrúar. Á árinu fór gengið hæst í 13,8 innan dags þann 26. febrúar síðastliðinn, en þann dag kynnti fyrirtækið um víðtækt samstarf við lyfjarisann Merck um lyfjarannsóknir. Þann 14. apríl sl. lauk deCODE við útboð breytanlegra skuldabréfa. Útboðið nam $150 milljónum og reyndist góð eftirspurn fjárfesta eftir bréfunum. Félagið gaf út að fjármagnið ætti að nýta í lyfjaþróun félagsins og til annarra verkefna fyrirtækisins," segir Vegvísir Landsbankans.