Bandarískur hlutabréfamarkaður tók stökk upp á við eftir að hlutaniðurstöður úr rannsókn á lyfinu Remdesivir, sem bandaríska líftæknifyrirtækið Gilead Sciences framleiðir, benda til þess að það gæfi góða raun í baráttunni gegn kórónuveirunni. Rannsóknargögn benda til þess að sjúklingar næðu sér hratt og hefðu nær allir verið útskrifaðir af sjúkrahúsi á innan við viku samkvæmt frétt Reuters um málið.

Hlutabréfaverð í Gilead hækkaði um 16% í viðskiptum eftir lokun markaða. Viðskipti með bréf á Dow Jones, S&P 500 og Nasdaq vísitölunum benda til þess að markaðurinn muni hækka á ný þegar markaðir opna í Bandaríkjunum síðar í dag.

Gilead segir þó að taka þurfi niðurstöðunni með fyrirvara. Rannsókninni sé ekki lokið og gögnin segi aðeins til um líðan hluta þeirra sjúklinga sem eru til rannsóknar. Fyrri rannsóknir hafa sýnt að Remdesivir kunni að gagnast gegn kórónuveirunni en þær hafa verið á minni skala.

„Þetta er augljósleg jákvætt. En við höfum heyrt svipaðar jákvæðar fréttir áður en sem hafa svo ekki gefið jafn góða raun og fólk vonaðist til,“ er haft eftir Matt Maley, hjá eignarstýringarfyrirtækinu Miller Tabak í umfjöllun CNBC. Maley segir stóru ósvöruðu spurninguna vera hvort lyfið geti haft næg áhrif til að hægt verði að koma bandarísku efnahagslífi í gang á ný.

„Fyrir mér er stóra málið vinnumarkaðurinn,“ segir Tabak. Takist að ná atvinnuleysi niður úr tveggja stafa tölu muni hlutabréfamarkaðurinn líklega taka stórt stökk upp á við.

Hlutabréfaverð í Bandaríkjunum tók skarpa dýfu úr sögulegum hæðum frá lokum febrúar og fram í mars. Markaðir tóku við sér á ný eftir 23. mars og hefur lækkun hlutabréfaverðs að miklu leyti gengið til baka. Sem stendur hefur Dow Jones vísitalan lækkað um 17,5% það sem af er ári, S&P 500 um 13,3% og Nadaq vísitalan um tæp 5%.

Greiningaraðilar hafa margir klórað sér í kollinum yfir verðhækkunum síðustu vikna þar sem aldrei hafa fleiri Bandaríkjamenn skráð sig á atvinnuleysisskrá en undanfarnar fjórar vikur.  Tæplega 22 milljónir Bandaríkjamanna hafa óskað eftir að komast á atvinnuleysisbætur á því tímabili, sem er met.

Verulegar örfunaraðgerðir stjórnvalda í Bandaríkjunum og vísbendingar um að kórónuveirufaraldurinn nálgist hápunkt þar í landi eru sagðar skýra hækkanir á hlutabréfaverði síðustu vikur.