Lyf & heilsa lokar á Akranesi, en frá því að Apótek Vesturlands opnaði á Akranesi um mitt ár 2007 hefur markaðshlutdeild Lyfja & heilsu á Akranesi hrunið og stendur reksturinn ekki lengur undir sér segir í tilkynningu.

Strax í kjölfar þess að Guðmundur Reykjalín (einn eigenda Lyfjabúða sem var undanfari Lyfju), Ólafur Adólfsson og Hjördís Ásberg opnuðu Apótek Vesturlands á Akranesi tapaði Lyf & heilsa Akranesi umtalsverðri markaðshlutdeild.

Apótek Vesturlands kærði Lyf & heilsu til Samkeppniseftirlitsins fyrir að lækka verð á völdum vörum og gerði eftirlitið húsleit á skrifstofum fyrirtækisins haustið 2007. Á þeim tímapunkti hafði Lyf & heilsa Akranesi tapað hátt í 50% af markaðshlutdeild á svæðinu. Samkeppniseftirlitið byggði heimild sína til húsleitar á viðtali við Ólaf Adólfsson, einn eigenda Apóteks Vesturlands, á dv.is. segir í tilkynningu félagsins.

„Þar sem Lyfjum & heilsu á Akranesi var ekki gert kleift að mæta samkeppni með lækkun vöruverðs hefur apótekið tapað meirihluta markaðarins til keppinautarins og því ljóst að ekki er grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri apóteks á Akranesi undir merki Lyfja & heilsu," segir í tilkynningu félagsins.