*

laugardagur, 29. janúar 2022
Innlent 2. desember 2017 10:02

Lyf og heilsa skilað 1,5 milljörðum

Hagnaður Lyfja og heilsu síðustu sex ár er 1,5 milljarðar króna.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Lyf og heilsa hagnaðist um 1,5 milljarða króna árin 2011-2016. Arðgreiðslur nema 1,1 milljarði króna á sama tímabili.Stjórn félagsins lagði til að 200 milljónir til viðbótar yrðu greiddar í arð á þessu ári. Lyf og heilsa er nú í eigu Jóns Hilmars Karlssonar, 22 ára sonar Karls Wernerssonar, fyrrum eiganda fyrirtækisins, í gegnum röð félaga.

Bræðurnir Steingrímur og Karl Wernerssynir, og Guðmundur Ólason, fyrrverandi forstjóri Milestone, voru dæmdir í Héraðsdómi Reykjavíkur í vor til að greiða þrotabúi Milestone alls 5,2 milljarða króna auk dráttarvaxta.

Þá var félagið Aurláki, sem er í eigu Karls Wernerssonar, dæmt í Héraðsdómi Reykjavíkur í ágúst 2016 til að greiða þrotabúi Milestone 970 millj­ónir auk dráttarvaxta frá maí 2012 vegna sölu á Lyfjum og heilsu út úr Milestone í mars árið 2008. Í dómnum kemur fram að lögmaður Milestone telji eina tilgang viðskiptanna hafa verið að færa verðmæti út úr Milestone til félaga í eigu Karls og Steingríms.

Óvissa um rekstrarhæfi Aurláka tapi

Aurláki var upphaflega dæmt í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða Milestone 970 milljónir árið 2015. Hæstiréttur ógilti dóminn og vísaði aftur til Héraðsdóms, sem dæmdi á sömu leið og í upphafi. Málinu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar á ný. Milli þess að stefna var birt í málinu í ágúst 2012 og þar til málið var dómtekið árið 2015 færðist eignarhald Lyfja og heilsu frá Aurláka til félagsins Faxa, sem upphaflega var í eigu Karls. Í dómnum kemur fram að Lyf og heilsa hafi verið eina eign Aurláka. Samkvæmt ársreikningi Aurláka fyrir árið 2016 er eina eign félagsins skuldabréf sem metin eru á 117,5 milljónir króna. Í ársreikningnum kemur fram að tapi Aurláki málinu gegn þrotabúi Milestone sé óvissa um fjárhagslega framtíð þess. Miðað við ársreikninginn á Aurláki að óbreyttu ekki fyrir 970 milljóna skuldinni tapi það málinu í Hæstarétti.

Breytt eignarhald daginn eftir dóm

Lyf og heilsa er í eigu félagsins Faxar ehf., sem er svo í eigu félagsins Faxi ehf. Það félag er í eigu Toska ehf. sem Jón Hilmar, sonur Karls er skráður eigandi að. RÚV greindi frá því í vor að Karl Wernersson hefði verið skráður eigandi Toska þegar félagið skilaði inn ársreikningi ársins 2014 til ársreikningaskrár í nóvember 2015. Þann 29. apríl 2016 var svo sendur inn leiðréttur ársreikningur til ársreikningaskrár þar sem Jón Hilmar var skráður eigandi Toska. Daginn áður, 28. apríl 2016, var Karl var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti og tapaði tveimur málum gegn þrotabúi Milestone. Ekki hefur verið útskýrt hvenær eigandaskiptin áttu sér stað, hver ástæða þeirra var eða hvað greitt var fyrir hlutinn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.