Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að Lyf og heilsa (L&h) hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína þegar fyrirtækið greip til aðgerða sem beindust gegn Apóteki Vesturlands á Akranesi á árunum 2006 og 2007. Lyf og heilsa þarf að greiða 100 milljónir króna í stjórnvaldssekt vegna þessa.

Forsaga málsins er sú að Samkeppniseftirlitið hóf rannsókn á ætluðum brotum L&h með húsleit í september 2007. Rannsóknin hófst í kjölfar ábendinga um að fyrirtækið hefði gripið til aðgerða til að hindra að Apótek Vesturlands (AV), sem þá var nýstofnað, næði að hasla sér völl á Akranesi.

L&h skaut ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafðist þess að hún yrði felld niður eða sektir lækkaðir verulega. Í júní 2010 staðfesti áfrýjunarnefnd hins vegar þá niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að L&h hefðu verið í markaðsráðandi stöðu og að aðgerðir fyrirtækisins hefðu falið í sér alvarleg brot á samkeppnislögum. Áfrýjunarnefndin taldi hæfilegar sektir kr. 100.000.000.

L&h skaut úrskurði áfrýjunarnefndar til dómstóla og með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá febrúar 2012 var úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála um brot L&h staðfestur. Héraðsdómur hafnaði líka kröfu um lækkun sektarinnar.

Í dómi Hæstaréttar sem féll í dag segir m.a. að brotin séu alvarleg enda hafi þau miðað að því að hafi verið alvarleg miðað að því að hindra innkomu nýrrar lyfjaverslunar á markað, sem L&h sat áður ein að. Markmið aðgerðanna hafi verið að veikja hinn nýja aðila og raska samkeppni.

Dómur Hæstaréttar