Enn sem komið er hefur engin jákvæð umsögn borist við reglugerðardrög um verðlagningu og greiðsluþátttöku lyfja. Umsagnaraðilar, sem koma úr hópi lyfjafyrirtækja, segja allar líkur á því að drögin verði til þess að draga úr samkeppni og leiða til afskráninga lyfja.

Fjallað var um reglugerðardrögin í Viðskiptablaðinu nýverið en þar lýstu framkvæmdastjórar Samtaka verslunar og þjónustu og Frumtaka yfir áhyggjum sínum. Samkvæmt reglugerðardrögunum, sem nú eru til umsagnar, ber við ákvörðun um hámarksverð ávísunarskyldra lyfja að taka „að jafnaði mið af lægsta heildsöluverði“ á Norðurlöndunum og EES. Með öðrum orðum, lyf á örmarkaðinum Íslandi eiga að vera á pari við það lægsta sem gengur og gerist í Evrópu.

Fyrir lyf sem velta minna en 6 milljónum króna á ári hérlendis er heimilt að miða við meðaltalsverð viðmiðunarlandanna auk 15% álags og fyrir 6 til 20 milljón króna veltu er heimilt að miða við sama verð en án álags. Tæplega eitt lyf af hverjum tíu er yfir 20 milljón króna veltumarkinu. Önnur lönd horfa síðan meðal annars til Íslands þegar verð er ákveðið þar.

Hætta á sömu þróun og í Noregi

„Ef auka á framboð lyfja og tryggja lyfjaöryggi í landinu telur Teva það mun ákjósanlegri leið að breyta verðákvæðum, sem og mögulega öðrum kostnaði við umsýslu lyfja, á þann hátt að það myndist hvati til skráninga nýrra lyfja, sérstaklega samheitalyfja sem valkost við dýrari frumlyf. Verðákvæðið verður þá að vera þannig fram sett að ekki verði þörf fyrir endalausar undanþágur. Ný tillaga gerir hins vegar ráð fyrir umtalsverðum lækkunum á lyfjaverði. Þetta mun hafa í för með sér afskráningar á þeim lyfjum sem nú þegar eru fáanleg og um leið koma í veg fyrir að ný lyf verði skráð,“ segir í umsögn Teva.

Í umsögninni segir að fyrir nokkrum árum hafi Teva, sem er eitt stærsta samheitalyfjafyrirtæki í heiminum, tekið þá ákvörðun um að afskrá lyf af markaði í Noregi sökum verðstefnu sem var viðhöfð þar.

„Það er ósk Teva að hægt verði að fá fleiri lyf til landsins en staðreyndin er hins vegar sú að núverandi fyrirkomulag hefur gert það að verkum að Teva á Íslandi hefur nú þegar þurft að afskrá talsvert af lyfjum og gengið illa að fá samþykki fyrir markaðssetningu nýrra lyfja. Ný reglugerð mun gera fyrirtækinu enn erfiðara fyrir og er veruleg hætta á að fyrirtækið neyðist til að taka enn fleiri lyf af markaði sem og draga úr starfsemi á Íslandi,“ segir í umsögn Teva.

Nái ekki upp í kostnaðarverð

Í annarri umsögn, frá LYFIS, er tekið dæmi sem bendir á að reglurnar muni þýða að einhver lyf verði seld undir kostnaðarverði. Kostnaður við að skrá, merkja og markaðssetja lyf á Íslandi sé hlutfallslega mjög hár sökum þess hve smár markaðurinn er.

„Dæmi er mikilvægt hjartalyf sem LYFIS hefur skráð og markaðssett en salan er undir 20 milljónum á ársgrundvelli. Við skoðun á verðum á Norðurlöndum kemur í ljós að lægsta heildsöluverð lyfsins er 149 ISK í Danmörku og 99 ISK í Svíþjóð. Markaðsráðandi samkeppnisaðili LYFIS þarf að fara niður á lægsta verð viðmiðunarlanda því hann selur jú fyrir yfir 20 milljónir á ári,“ segir í umsögn LYFIS.

Við það vandist hins vegar málið því LYFIS þurfi þá að lækka verð sín til að forða því að birgðir félagsins standi óhreyfðar. En bara kostnaðurinn við prentun pakkninga er á bilinu 130-140 krónur íslenskar og er þá ótalinn ýmis annar kostnaður. Því sé nær bókað að LYFIS muni afskrá lyf sitt af markaði og viðbúið að samkeppnisaðilinn muni gera það einning.

Umsögn Icepharma er á svipaða leið. Þar er bent á að nú þegar sé erfitt að fá framleiðendur til að skrá lyf sín á markað á Íslandi og bókað mál sé að reglugerðin muni draga úr framboði. Það mun síðan leiða til þess að öryggi sjúklinga verður ekki eins og best verður á kosið.

„Eitt sláandi dæmi er erlendur lyfjaframleiðandi, einn af leiðandi fyrirtækjum í heiminum í lyfjaþróun, sem hefur kosið að markaðssetja ekki lyf á Íslandi á undanförnum árum. Þannig hafa sjö ný lyf gegn krabbameini, sykursýki og mígreni verið markaðssett á Norðurlöndum en ekki á Íslandi. Sjúklingar hér á landi fá því ekki sama aðgang að meðferðarúrræðum og þau lönd sem við viljum gjarnan bera okkur saman við,“ segir í umsögn Icepharma.

„Á Íslandi starfa ýmis alþjóðleg fyrirtæki á borð við IKEA, Costco, Bauhaus o.fl. Ekkert þessara fyrirtæki treystir sér til að selja vörur og þjónustu á meðalverði eða lægsta verði samanburðarlandanna. Til þess er íslenski markaðurinn of smár auk þess sem flutningar, vinnuafl, húsnæði og fjármögnun eru mun dýrari. Í þessu samhengi væri hægt að velta því upp hvort það væri raunhæf krafa frá hinu opinbera að önnur mikilvæg aðföng á borð við sérfræðiþjónustu, matvöru, tölvubúnað, þrif, sjúkrabíla o.fl. væru sel til heilbrigðiskerfisins á meðalverði eða lægsta verði samanburðarlanda. Svarið við því er líklega nei, nema hið opinbera væri tilbúið að gera verulegar tilslakanir hvað gæði og afhendingaröryggi aðkeypta aðfanga varðar,“ segir í umsögn Parlogis.