Lyfja hagnaðist um 446 milljónir króna eftir skatta árið 2022, samanborið við 520 milljónir árið 2021. Þetta kemur fram í tilkynningu sem lyfjaverslanakeðjan sendi frá sér í morgun.

Festi, móðurfélag Krónunnar, N1 og Elko, tilkynnti í síðustu viku að það hefði náð samkomulagi um helsti skilmála vegna fyrirhugaðra kaupa á Lyfju. Heildarvirði Lyfju í samkomulaginu er 7,8 milljarðar króna.

Tekjur Lyfju námu alls 15,2 milljörðum árið 2022, samanborið við 13,9 milljarða árið 2021, en tekjur af vörusölu jukust um 9% frá fyrra ári. Framlegð af vörusölu var 32% sem er óbreytt hlutfall frá fyrra ári. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 1,3 milljörðum.

Í Kauphallartilkynningu Festi í síðustu viku kemur fram að áætlanir Lyfju fyrir árið 2023 geri ráð fyrir að EBITDA-hagnaður árið 2023, án IFRS16 áhrifa, nemi 1.044 milljónum króna.

Alls starfa 384 starfsmenn hjá Lyfju samstæðunni í 242 stöðugildum. Um þriðjungur starfsmanna Lyfju eru sérhæfðir heilbrigðisstarfsmenn og 84% starfsmanna eru konur.

Nýjar tekjustoðir

Lyfja fjárfesti fyrir alls 380 milljónir í fyrra. Fyrirtækið segir að áhersla hafi verið lögð á bæði rekstrar- og vaxtarverkefni. „Félagið vinnur að þeirri sýn að lengja líf og auka lífsgæði, með umbreytingu á verslunum sínum, stafrænum lausnum, vöruvali, fræðslu, fyrirbyggjandi lausnum og áherslu í markaðsstarfi.“

Lyfja rekur lyfjaverslanir, heilsuvöruverslun undir merkjum Heilsuhússins og heildsölu sem sérhæfir sig í innflutningi á heilsuvörum, lyfjum og apóteksvörum.

Á síðasta ári fékk Heilsa, innflutnings- og heildsölufyrirtæki í eigu Lyfju, tilskilin leyfi vegna samhliða innflutnings lyfja og tók á móti fyrstu lyfjasendingunni til landsins.

Þá fékk Lyfja nýverið ‎rekstrarleyfi til sölu heyrnartækja frá Heilbrigðisráðuneytinu, en á síðasta ári fór fram undirbúningur að nýrri verslun og þjónustumiðstöð á sviði heyrnarvarna, heyrnarmælinga og heyrnartækja sem mun opna í Lágmúla á komandi mánuðum.

„Hjá Lyfju starfar framúrskarandi hópur starfsmanna sem náði góðum árangri á síðasta ári, árangri sem eftir var tekið en félagið fékk fjórar viðurkenningar á árinu, síðast í desember þegar við vorum valin markaðsfyrirtæki ársins af ÍMARK,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Lyfju.

„Fræðsla og fyrirbyggjandi lausnir eru mikilvægur hluti af því að lifa stefnuna okkar og við héldum sem dæmi 21 fræðsluviðburð í beinni útsendingu á samfélagsmiðlum Lyfju, bæði í samstarfi við nokkra af fremstu læknum landsins og okkar eigin sérfræðinga á árinu.“