Lyfja hefur náð samkomulagi við eigendur Apóteks MOS um kaup á apótekinu en Apótek MOS hefur starfað í Mosfellsbæ frá árinu 2016.

„Það hafa verið forréttindi að byggja upp rekstur apóteksins í samvinnu við öflugan hóp starfsmanna og ég mun vissulega sakna samstarfsins. Mosfellsbær er ört vaxandi markaður, en nú er rétti tímapunkturinn til að aðrir taki við keflinu“, segir Þór Sigþórsson lyfsali hjá Apóteki MOS.

Þórbergur Egilsson
Þórbergur Egilsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Lyfja mun taka yfir réttindi starfsmanna og mun til framtíðar styðja við áframhaldandi uppbyggingu apóteksins. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

„Apótek MOS er vel staðsett og vel rekið apótek sem hefur farið nýjar leiðir í lyfsölu á Íslandi. Apótekið leggur mikla áherslu á nálægð lyfjafræðinga við viðskiptavini og við hlökkum til að vinna með starfsfólkinu í Apóteki MOS, læra af þeim og halda áfram að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu“,  segir Þórbergur Egilsson sviðsstjóri smásölu Lyfju.

Lyfja er 70% í eigu SÍA III og 30% í eigu einkafjárfesta.  SÍA III er framtakssjóður sem er í eigu lífeyrissjóða, fjármálafyrirtækja og fagfjárfesta. Einkafjárfestarnir eru tveir, Ingi Guðjónsson annar tveggja stofnanda Lyfju og Daníel Helgason, fjárfestir. Lyfja rekur 44 apótek og útibú um allt land og hjá Lyfju starfa ríflega 400 starfsmenn.