Í kjölfar lagasetningar um fyrirkomulag og eftirlit með sölu rafrettna og áfyllinga fyrir rafrettur, sem tóku gildi 1. mars sl., er lyfjafyrirtækið Artasan að hefja innflutning á rafsígarettum sem uppfylla allar kröfur um gæði, öryggi og rekjanleika vörunnar. Þær eiga að höfða til fólks sem vill hætta að reykja en ekki barna og unglinga, enda vill fyrirtækið að gengið verið lengra í að banna bragðtegundir sem höfða til barna. Greinir fyrirtækið frá þessu í fréttatilkynningu.

„Við hefðum viljað sjá yfirvöld ganga lengra í nýju lögunum en gert er og banna ávaxta- og nammibragðtegundir til að reyna að stemma stigu við þeirri miklu aukningu sem orðið hefur í notkun rafsígarettna á undanförnum misserum á meðal barna og unglinga," segir Brynjúlfur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Artasan, sem er að setja á markað rafsígarettur með bara tóbaks- og mentólbragði.

„Markhópurinn okkar er fólk sem vill hætta að reykja og reynslan erlendis frá er að þessar tvær bragðtegundir höfða mest til þeirra sem eru að hætta að reykja. Hægt er að fá áfyllingar í mun fleiri bragðtegundum en þær höfða meira til yngri notenda, sem er ekki okkar markhópur."

Gæðavottun og rekjanleiki vöru tryggður

Í tilkynningunni segir að rafretturnar frá Artasan komi í pakkningum þar sem allar leiðbeiningar og upplýsingar séu á íslensku en skylt sé að hafa á umbúðunum viðvaranir um áhrif á heilsu og leiðbeiningar um notkun og geymslu. Framleiðandinn sé með vottað framleiðsluferli og gæðastaðla og innihaldsefnin, sem notuð eru til lyfjagerðar, séu gæðavottuð. Þá auki það enn á öryggi notenda sem velja vörur Artasan að ekki verður hægt að fylla á eða fikta í vökvanum, þar sem um svokallað lokað kerfi er að ræða.

„Þessu til viðbótar tryggir gæðakerfið okkar fullkominn rekjanleika allrar vöru sem frá okkur fer og starfsfólkið okkar er þjálfað árlega í okkar gæðaferlum og verklagi," segir Brynjúlfur.

Ekki má selja rafrettur og áfyllingar sem innihalda nikótín nema þær hafi verið tilkynntar sex mánuðum fyrir markaðssetningu til Neytendastofu, sem fer með markaðseftirlit með nýju lögunum. Til að standa straum af því verður innheimt eftirlitsgjald sem nemur 75.000 krónum fyrir hvert vörunúmer.

Eðlilegt að borga eftirlitsgjöld

„Það verður að vera eftirlit og það kostar," segir Brynjúlfur vegna þeirrar óánægju sem komið hefur fram um upphæð eftirlitsgjaldsins og fyrirkomulagið. „Við borgum árgjöld af öllum lyfjum og eftirlitsgjöld eru eðlilegur hluti af svona starfsemi." Þá undrast framkvæmdastjóri Artasan að reglugerð um merkingar á umbúðum rafrettna og áfyllinga með nikótíni taki ekki gildi fyrr en 1. júní nk. „Markaðurinn er búinn að hafa nægan tíma til að undirbúa sig. Vitneskja um regluverkið hefur legið fyrir mánuðum saman og menn hefðu vel getað verið búnir að undirbúa sig með því að fara eftir því sem gert er í nágrannalöndum okkar. Þetta er bara spurning um vilja til að fara að lögum og gera hlutina rétt frá upphafi."