Lyfjafyrirtækið Isis var stofnað fyrir 30 árum síðan, og var nefnt eftir lækningagyðju forn-egypta. Félagið, sem er staðsett í Carlsbad í Kaliforníu, sérhæfir sig í þróun lyfja og meðferða við sjaldgæfum sjúkdómum.

Eftir að hryðjuverkahópnum alræmda ISIS (Islamic State of Iraq and Syria) óx fiskur um hrygg hefur Isis Pharmaceuticals fundið fyrir mikilli pressu um að breyta nafni fyrirtækisins.

Nú hefur fyrirtækið loks ákveðið að skipta um nafn , og mun heita Ionis. Í fyrra lýsti forstöðumaður samskipta því yfir að nafni fyrirtækisins yrði ekki breytt, svo þessar fréttir marka eins konar 180° viðsnúning.

Í hvert sinn sem Íslamska ríkið komst í fréttir flæddu tölvupósthólf og símar starfsmanna af fyrirspurnum fjölmiðla, segir Dr. Amy Williford, upplýsingafulltrúi félagsins.

EKki er að sjá á fyrirtækinu að nafnavalið óheppilega hafi haft slæm áhrif á markaðsvirði þess, en frá árinu 2011 hefur hlutabréfaverð í Isis Pharmaceuticals vaxið úr því að vera 10 dalir á hlut að því að vera 50 í dag.

Fyrirtækið mun þá einnig breyta kennimerki sínu á hlutabréfamörkuðum, sem var áður ISIS, en verður nú IONS.