Lyfjaiðnaðurinn í Bandaríkjunum hefur átt undir högg að sækja á síðustu vikum. Eftir að Merck dró gigtarlyfið Vioxx af markaði í síðustu viku birtist grein í hinu virta læknariti The New England Journal of Medicine sem benti á að vinsæla gigtarlyfið Celebrex sem Pfizer framleiðir gæti valdið auknum líkum á hjartaáfalli eins og Vioxx. Pfizer gaf út tilkynningu í kjölfarið um að Celebrex væri í lagi. Hafði þetta þau áhrif að gengi Pfizer lækkaði í vikunni um 4,8% og endaði verð á hlutabréfum í félaginu í 29,80 dollurum á hlut ein og greint er frá í Vikufréttum MP fjárfestingabanka.

Áhrifin á Merck vegna afturköllunar á Vioxx gætir enn og lækkaði félagið um 11,34% í þessari viku ofan á 24% lækkun í síðustu viku og stendur hlutabréfaverð Merck nú í 30,34 dollurum á hlut.

Hlutabréfaverð lyfjaframleiðandans Chiron, sem er einna þekktastur fyrir að framleiða mótefni ýmiskonar, lækkaði mikið í vikunni. Nam lækkunin 21,55% yfir vikuna og endaði verð á hlutabréfum í félaginu 35,63 dollurum á hlut. Ástæða þessarar miklu lækkunar er að vegna framleiðsluvandræða hafa bresk heilbrigðisyfirvöld stoppað það sem kallað er flensusprautur eða mótefni gegn flensuvírusum. Þessi mótefni áttu að duga á allt að helming tilfella í Bandaríkjunum yfir flensutímabilið sem nær frá október fram í mars. Í kjölfarið lækkaði Chiron tekjuvæntingar sínar um 60% segir í Vikufréttum.