Aðgerðir til að draga úr lyfjakostnaði Sjúkratrygginga Íslands hafa skilað nokkrum árangri en lyfjakostnaðurinn lækkaði um 4,5% á milli áranna 2011 og 2012. Kostnaður að undanskildum sjúkrahúslyfjum nam 8.911 milljónum króna árið 2012 samanborið við 9.333 milljónir árið 2011.

Lyfjakostnaður sjúkratrygginga lækkaði þó að lyfjanotkun landsmanna ykist um 1% á sama tíma, mæld í fjölda skilgreindra dagskammta. Þetta kemur fram í skýrslu Sjúkratrygginga Íslands. Þar segir að gengi krónunnar gagnvart helstu myntum hafi að meðaltali verið nánast óbreytt milli áranna 2011 og 2012 og hafði því lítil áhrif á lækkunina. Lækkun kostnaðar milli ára skýrist fyrst og fremst af aukinni samkeppni á lyfjamarkaði en verð á mörgum lyfjum hefur lækkað mikið með tilkomu nýrra samheitalyfja á markaði.