Invent Farma ehf. hefur verið tilkynnt um að félaginu hafi verið úthlutað lóð inni á lóð Háskólans í Reykjavík undir 3.000 fermetra lyfjaverksmiðju.

Eins og áður hefur komið fram í Viðskiptablaðinu hyggst félagið hefja lyfjaþróunarstarfsemi hér á landi. Að sögn Friðriks Steins Kristjánssonar, stjórnarformanns Invent Farma ehf., hefur félagið nú fengið staðfesta lóð en í síðustu viku voru opnuð tilboð vegna framkvæmda við háskólabyggðina. Sagði Friðrik að eftir væri að útfæra hvernig bygging þeirra félli að háskólasamfélaginu en hann sagðist vera sáttur við þessa niðurstöðu. Sagðist hann vonast til að hægt verði að hefja framkvæmdir í byrjun næsta árs og starfsemi hæfist þá árið 2008. Gert er ráð fyrir að HR hefji starfsemi sína í Vatnsmýrinni árið 2009.

Gert er ráð fyrir að 30 til 40 starfsmenn vinni þarna við lyfjaþróun þegar starfsemin verður fullmönnuð en fyrirtækið Invent Farma rekur nú tvær lyfjaverksmiðjur  í Barcelóna. Fyrirtækið sérhæfir sig í þróun og framleiðslu virkra lyfjaefna (API). Helstu markaðir félagsins eru í Evrópu, Bandaríkjunum og í Japan. Laboratorios Lesvi sérhæfir sig í þróun og framleiðslu á samheitalyfjum, bæði undir eigin vörumerkjum til sölu á Spáni og undir vörumerkjum annarra. 300 starfsmenn vinna hjá fyrirtækjunum þar af  60 á rannsóknar- og þróunardeild félagsins. Ætlunin er að þróa samheitalyf sem ekki er unnt að þróa með sama hætti á Spáni vegna einkaleyfalaga. Það gerir Ísland að ákjósanlegu landi fyrir þróunarstarf af þessu tagi og því er ætlunin að flytja þróunarstarfið hingað til lands.