„Staðan er einfaldlega þessi: Evrópska lyfjaverslunin, sú stefna sem ESB hefur markað sér, er haftaverslun, í raun væg útgáfa að einokunarversluninni sem Íslendingar bjuggu hér við í eina tíð. Við erum með fákeppni og alltof hátt verð. Það væri í sjálfu sér ekki flókið mál að opna lyfjamarkaðinn ef við værum ekki hluti af Evrópska efnahagssvæðinu, en vegna þess að við þurfum að fara eftir þessum evrópureglum þá er það mjög flókið mál,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, í helgarviðtali Viðskiptablaðsins.

„Svona eðlisþættir ESB ættu að vera sumum nokkurt áhyggjuefni. Útgangspunktur okkar er að opna markaðinn, gera innflutning einfaldari og auka þannig samkeppni. Fyrsta skrefið sem ég tók í þessu máli var að fara með tillögur í þessum anda á fund norrænu heilbrigðisráðherranna um að unnið yrði að því að skapa sameiginlegan norrænan lyfja- og heilsumarkað og sú tillaga var samþykkt. Þessi samvinna er komin af stað, t.d. eru lyf sem skráð eru á markað í Svíþjóð nú samtímis skráð inn á íslenska markaðinn, og nú þegar eru 12 lyf í skráningarferli með þessu móti og fleiri skráningar eru á leiðinni.

Sömuleiðis höfum við leitast við að fjölga söluaðilum á markaðinum og liður í því var að opna fyrir póstverslun með lyf. Í gangi er vinna við að búa til lagaramma sem gerir mönnum kleift að gerast milliliðir – þeir verða þó að hafa lyfsöluleyfi – og í kjölfarið geta apótek hér á landi sem og annars staðar á Norðurlöndunum selt lyf í gegnum póstverslun. Allt er þetta gert til þess að opna markaðinn og auka samkeppni. Við höfum líka efnt til útboða og hvatt stórar stofnanir vinna saman í tilboðum til erlendra söluaðila til þess að fá hagstæð kjör, en fleira er einnig í bígerð til þess að ná þessu markmiði.“

______________________________________

Í helgarblaði Viðskiptablaðsins er ítarlegt viðtal við Guðlaug Þór þar sem hann ræðir m.a. byggingu nýs hátæknisjúkrahúss, einkaframtak innan heilbrigðisgeirans og breytingu á lyfjalögum. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum frá kl. 21:00 í kvöld. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .