Lyfjaútgjöld Tryggingastofnunar lækka um 142 milljónir króna á þessu ári í kjölfar lækkunar á lyfjaverði frá innflytjendum frumlyfja sem tók gildi í dag. Að mati lyfjadeildar TR lækka lyfjaútgjöld á ársgrundvelli um 284 milljónir króna.

Að sögn Svanhildar Sveinbjörnsdóttur í lyfjadeild TR lækka lyfjaútgjöld Tryggingastofnunar þó ekki milli ára en hins vegar hægir á stöðugum vexti þeirra. "Þrátt fyrir þessa lækkun á lyfjaverði gerum við ráð fyrir að lyfjaútgjöld TR aukist nokkuð milli ára," segir hún, "að teknu tilliti til verðlækkana sem tekið hafa gildi á síðustu tveimur mánuðum."