Lyfjaverð á Íslandi er lægra en í Danmörku og Svíþjóð, þegar litið er til 20 kostnaðarsömustu lyfseðilsskyldu lyfjanna.

Þetta kemur fram í nýrri könnun sem birt hefur verið á vef Samtaka verslunar og þjónustu.

Þar segir, að samanburður á verði 20 kostnaðarsömustu lyfjanna 28. maí sl. í apótekum í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og á Íslandi kemur í ljós að þau eru að meðaltali 14,9% dýrari í Danmörku en hér á landi, og 10,1% dýrari í Svíþjóð en hér. Lyfin eru hins vegar 5,6% ódýrari í Noregi en á Íslandi.

Auk þessa veita íslensk apótek mismunandi afslátt frá opinberu verði vegna samkeppni þeirra á milli. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er bannað að veita afslátt af lyfseðilsskyldum lyfjum.

Verðsamanburðurinn er gerður út frá upplýsingum á vefsíðum frá löndunum.

Lyfjaverð á Íslandi, heildsöluverð jafnt sem smásöluverð, er ákveðið af ríkinu. Þegar borin eru saman verð milli landa er mikilvægt að nota svokallað viðmiðunarverð, sem er lægsta verð lyfja með sama innihaldsefni. Þá má ekki eingöngu telja fjölda tilfella hæsta og lægsta verðs því þá fæst ekki mynd af því hver raunverulegur verðmunur á milli landa.

Sjá meðfylgjandi töflu