Á morgun mánudaginn 21. febrúar mun samkeppni í smásölu lyfja aukast en þá opnar Lyfjaver fyrsta heimsendingarapótekið hér á landi sem sérhæfir sig í að afgreiða lyfseðilskyld lyf á hagstæðu verði heim til neytenda hvert á land sem er. Í tilkynningu Lyfjavers kemur fram að þeir hyggjast bjóða sama lyfjaverð og fría heimsendingu hvort sem neytandinn býr í miðborg Reykjavíkur eða á Þórshöfn á Langanesi.

"Heimsendingar-apótekið leggur áherslu á samkeppnishæft lyfjaverð og býðst til að gera viðskiptavinum verðtilboð. Miðað er við að virka daga séu lyf afgreidd samdægurs heim til notenda á höfuðborgarsvæðinu og innan 24 tíma víðast annars staðar á landsbyggðinni. Þeir sem vilja nýta sér þjónustu heimsendingarapóteks Lyfjavers geta komið með lyfseðlana í afgreiðslu apóteksins við Suðurlandsbraut 22 í Reykjavík eða sent þá þangað í pósti," segir í tilkynningunni.

Þars egir ennfremur að undirbúningur þessarar þjónustu hefur verið viðamikill og staðið yfir hátt á annað ár. Prófanir undanfarið hafa staðfest að dreifingarkerfið er tilbúið og virkar eins og til er ætlast.

Lyfjaver er brautryðjandi hér á landi í tölvustýrðri lyfjaskömmtun en hún hefur vaxið hratt frá því Lyfjaver skammtaði í fyrsta lyfjapokann árið 1999. Í dag útbýr fyrirtækið lyfjaskammta fyrir um 3700 einstaklinga sem búa ýmist í heimahúsum, dvalarheimilum eða á öðrum heilbrigðisstofnunum en flestir taka frá þremur og upp í 8 mismunandi lyf.

Á síðustu misserum hefur Lyfjaver stóraukið eigin innflutning á lyfjum og að sögn Bessa Gíslasonar yfirlyfjafræðings félagsins eru það aukin umsvif samhliða góðri nýtingu á mannafla, húsa- og tækjakosti sem gerir fyrirtækinu kleift að bjóða þessa nýju þjónustu án þess að þurfa að hækka verðið.

Lyfjaver ehf var stofnað árið 1998 og í dag eru 16 starfsmenn hjá félaginu. Þeirra á meðal eru allir fjórir eigendur félagsins, Aðalsteinn Steinþórsson stjórnarformaður, Magnús Steinþórsson framkvæmdastjóri, Bessi Gíslason yfirlyfjafræðingur og Eyþór Einar Sigurgeirsson lyfjafræðingur.