Samningar hafa tekist um að sameina lyfsölufyrirtækin Lyfjaver ehf og DAC ehf. en bæði stunda þau innflutning, dreifingu og vélskömmtun á lyfjum. Gert er ráð fyrir að formleg sameining eigi sér stað í byrjun ágúst að fengnu samþykki Samkeppniseftirlits.

Í tilkynningu félaganna kemur fram að markmiðið með því að sameina þessi tvö fyrirtæki er að byggja upp arðbært og faglega sterkt markaðsfyrirtæki og að auka til muna samkeppni í innflutningi og dreifingu lyfja hér á landi, en í dag eru á milli 65 og 70% alls lyfjainnflutnings á hendi eins aðila.

"Lyfjaver ehf. sem var stofnað 1998 er frumkvöðull og leiðandi aðili hér á landi í tölvustýrðri lyfjaskömmtun fyrir einstaklinga og stofnanir. Fyrirtækið hefur verið vaxandi aðili í lyfjainnflutningi auk þess að reka apótek við Suðurlandsbraut í Reykjavík. A"lls starfa í dag 19 manns hjá Lyfjaveri.

DAC ehf. var stofnað 2003 og er ört vaxandi fyrirtæki á sviði innflutnings, markaðssetningar og dreifingar á lyfjum og hjúkrunarvörum auk tölvustýrðrar lyfjaskömmtunar fyrir einstaklinga og stofnanir. Alls starfa 13 manns hjá DAC sem er með höfuðstöðvar í Auðbrekku í Kópavogi," segir í tilkynningu félaganna.

Með samningnum eignast DAC, sem er dótturfélag L&H eignarhaldsfélags ehf., ráðandi meirihluta í Lyfjaveri. Stjórnendur og núverandi eigendur Lyfjavers verða áfram hluthafar og munu starfa áfram hjá sameinuðu fyrirtæki. Framkvæmdastjóri sameinaðs fyrirtækis verður Magnús Norðdahl núverandi framkvæmdastjóri DAC ehf.