Hafist verður handa við að reisa um 350 fermetra viðbyggingu við lyfjafyrirtækið PharmArctica á Grenivík í vor. Fyrirtækið hefur verið starfandi þar í áratug og er í um 200 fermetra húsnæði sem orðið er alltof lítið, skortur á rými er farinn að hamla starfseminni enda hefur umfangið aukist með árunum.

Sigurbjörn Jakobsson framkvæmdastjóri segir í samtali við Vikudag að rekstur fyrirtækisins hafi gengið vel að undanförnu.

Það var formlega stofnað árið 2002 en tók til starfa á árinu 2003. Hann segir að félagið hafi verið rekið með tapi öll árin nema hvað viðsnúningur varð í rekstri á liðnu ár og skilaði það þá hagnaði í fyrsta sinn.