Áformað er að reisa glucosamine lyfjaverksmiðju á Húsavík og verður fyrri áfangi verksmiðjunnar boðinn út í haust. Heildarkostnaður við uppbyggingu verksmiðjunnar er um 600 m.kr. og mun hún skapa um 20 ný störf á Húsavík. Þetta kom fram í frétt Ríkisútvarpsins.

Þar segir ennfremur að stofnun verksmiðjunnar á Húsavík eigi sér nokkuð langan aðdraganda en að henni standa aðallega norskir fjárfestar auk Þjóðverja og heimamanna. Verksmiðjan sem fyrst verður reist mun framleiða efnið kítín en það er unnið úr rækjuskel. Í öðrum áfanga verður svo byrjað að framleiða lyfið glucosamine það styrkir bandvefi líkamans og er til dæmis notað gegn gikt segir frétt RÚV.