Leiðir til lækkunar á lyfjakostnaði voru ræddar á morgunverðarfundi á vegum lyfsöluhóps SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu – í morgun á Hilton Reykjavík Nordica, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Þorvaldur Árnason, fulltrúi lyfjasmásala í lyfjagreiðslunefnd, fór yfir tillögur lyfsöluhóps SVÞ í fimm liðum til lækkunar á lyfjakostnaði.

Í fyrsta lagi er lagt til að byggður verði inn hvati í smásöluálagningu til að auka sölu á ódýrari lyfjum.

Í öðru lagi er lagt til að efla lyfjaskömmtun fyrir einstaklinga, sem er ein af forsendum þess að aldrað fólk geti dvalið lengur heima hjá sér.

Í þriðja lagi er hvatt til þess að nýta betur þekkingu lyfjafræðinga og efla nám lyfjatækna.

Í fjórðu tillögunni er hvatt til aukins innflutnings samheitalyfja og fjölgunar útboða hjá ríkinu og í fimmta lagi er lagt til að virðisaukaskattur á lyf verði lækkaður eða afnuminn.

Til samanburðar má geta þess að virðisaukaskattur á lyf á Íslandi er í hæsta þrepi, 24,5%, en í Svíþjóð er enginn virðisaukaskattur lagður á lyf. Þorvaldur kvaðst telja eitthvað vera að kerfi þar sem virðisaukaskattur á lyf væri meira en þrisvar sinnum hærri en virðisaukaskattur á gosdrykki, segir í fréttatilkynningunni.

Þorvaldur greindi frá reiknilíkani fyrir sölu lyfseðilsskyldra lyfja sem byggt er á ársskýrslum apóteka með samtals 80% hlutdeild af smásöluveltu lyfja. Samkvæmt reiknilíkaninu er enginn hagnaður af lyfsölu sem eingöngu selur lyfseðilsskyld lyf. Þorvaldur sýndi samanburð á verði 20 söluhæstu lyfjanna í apótekum í Danmörku og á Íslandi, þar sem í ljós kom að þessi lyf eru að meðaltali 1,5% ódýrari á Íslandi en í Danmörku.

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra sagði í erindi sínu að ljóst væri að íslenskur lyfjamarkaður virkaði ekki sem skyldi, lyfjaverð hér væri hærra en á öðrum Norðurlöndum og langt yfir meðalverði lyfja í ríkjum Evrópusambandsins.

Yfirlýst markmið hans varðandi lyfjamarkaðinn á Íslandi væru tvíþætt: Annars vegar að lækka lyfjakostnað og hins vegar að lækka lyfjaverð til almennings, samhliða auknu framboði lyfja og að fyllsta öryggis sjúklinga væri gætt.

Ráðherra sagði leiðina að þessum markmiðum vera að opna markaðinn, auðvelda aðkomu fleiri aðila og stuðla að aukinni samkeppni og frjálsari viðskiptum á markaðnum. Hann kynnti aðgerðir í ellefu liðum sem nú liggja fyrir í drögum að breytingum á lyfjalögum og reglugerðum sem koma til afgreiðslu á næstu dögum og vikum.

Pétur H. Blöndal, alþingismaður og formaður nefndar á vegum heilbrigðisráðherra, fjallaði um greiðsluþátttöku einstaklinga til heilbrigðiskerfisins sem hann sagði allt of flókna. Sem dæmi nefndi hann að langveikir virtust stundum greiða mjög mikið – en vegna afslátta væri ekki vitað nákvæmlega hversu mikið. Þá væru dæmi um að aðrir greiddu lítið sem ekkert. Verkefni nefndarinnar er í fyrsta lagi að kortleggja núverandi greiðsluþátttöku – hvað fólk sé raunverulega að greiða í öllu kerfinu – og í öðru lagi að hugleiða nýtt kerfi.

Tekið verður á vandanum í tveimur þrepum, í fyrsta lagi á lyfjamálum og í öðru lagi á öðrum heilbrigðiskostnaði. Pétur kvaðst hafa sett sér það markmið að nýtt kerfi greiðsluþátttöku lyfja yrði komið í gagnið 1. maí nk.

Pétur sagði markmið þessarar vinnu vera að líta á allt heilbrigðiskerfið frá sjónarhorni einstaklingsins og tryggja hann fyrir áföllum, þannig að enginn greiði meira en ákveðið hámark á ákveðnu tímabili. Ennfremur að flytja kostnað frá þeim sem oft eru veikir til hinna sem sjaldan eru veikir. Þá sé markmiðið að viðhalda kostnaðarvitund og hindra þannig sóun – og að kerfið verði einfalt.