Eins og íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa ef til vill tekið eftir er framkvæmdum við Fosshótel Reykjavík á Höfðatorgsreitnum nú lokið. Á næstu misserum mun annar turn byrja að rísa suðaustan við hótelið, en samkvæmt deiliskipulagi er gert ráð fyrir að hann verði 12 hæðir. Gunnar Valur Gíslason, framkvæmdastjóri fyrirtækjasamsteypu Eyktar á Höfðatorgi, segir í samtali við Viðskiptablaðið að í þeim turni verði 94 íbúðir auk um 800 fermetra verslunar- og þjónusturýmis á jarðhæð. 15 bílskúrum fyrir íbúa hins nýja turns verður komið fyrir inni í bílakjallara. Áformað er að framkvæmdum við turninn ljúki árið 2017.

Á efstu hæð hins nýja turns verður rúmlega 400 fermetra íbúð. Þeirri íbúð fylgir stór bílskúr í kjallara og hægt verður að taka lyftu beint úr bílskúrnum upp í íbúðina. Á næstefstu hæð turnsins verða einnig stórar íbúðir. Áformað er að afhenda íbúðir á efstu tveimur hæðum turnsins tilbúnar til innréttingar enda segir Gunnar Valur að kaupendur á svona stórum íbúðum vilji hanna innri frágang þeirra sjálfir. Aðspurður segist hann telja markað fyrir svona íbúðum vera til staðar, en þó í takmörkuðum mæli. Hann vill ekkert gefa upp um hugsanlegt söluverð íbúðarinnar á efstu hæðinni, enda segir hann að verð íbúða í húsinu muni ekki liggja fyrir fyrr en í haust.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .