Auður Lilja Davíðsdóttir, framkvæmdastjóri sölusviðs hjá Öryggismiðstöðinni hefur mikinn áhuga á bílum. Hún segist eiga draumabílinn sem er Range Rover Evoque. Auður segir að Daihatsu Charade sé samt uppáhaldsbíllinn sem hún hafi átt. Eftirminnilegasta bílferð hennar var í Jerúsalem á dögunum þar sem hætta skapaðist í einni af bröttum götum borgarinnar helgu en betur fór en á horfðist.

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?

„Ég ók um daginn Audi Q7, Hybrid-útgáfunni og líkaði vel. Hann er léttur í akstri, hljóðlátur og sætin afar þægileg.  En sá bíll sem hefur verið í mestu uppáhaldi í minni eigu í gegnum tíðina er án efa Daihatsu Charade sem pabbi heitinn gaf mér hérna um árið er hann var að uppfæra sig í nýrri útgáfu en hann fjárfesti með reglulegu millibili í bíl af þeirri tegund. Dásamlega nettur bíll og léttur, auðvelt að lyfta honum upp úr snjósköflunum fyrir vestan þegar maður festi sig á götum Ísafjarðar á snjóþungum vetrum. En hann var auðvitað gjörsneyddur öllum nútíma þægindum eins og til dæmis sætishitara sem ég hreinlega gæti ekki lifað af án í dag. Og handfrjáls símabúnaður er mér líka afar nauðsynlegur. Bílferðir veita oft besta næðið á annasömum dögum til þess að eiga góð símasamtöl.“

Hver er eftirminnilegasta bílferðin?

„Sú eftirminnilegasta er líklega nýleg bílferð í Jerúsalem í Ísrael  þar sem ég var á ferð um daginn. Þar eru margar göturnar afar brattar, flestar einbreiðar með umferð í báðar áttir. Göturnar afmarkaðar með háum steinveggjum og snarbrattar. Bílstjórinn okkar var þó afar öruggur með sig og var ekkert að stressa sig yfir því að reka bílinn utan í veggina í þrengslunum. Í einni af einbreiðu brekkunum vorum við rúmlega hálfnuð niður þegar að við mættum bíl og ég varð guðs lifandi fegin er ég áttaði mig á því að sá þyrfti að bakka niður og víkja en þarna gildir lögmálið „fyrstur kemur, fyrstur fær.“

Nánar er fjallað um málið í Bílum, sérblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .