*

sunnudagur, 12. júlí 2020
Erlent 30. desember 2018 14:02

Lyftur skiluðu Herlin á toppinn

Antti Herlin, ríkasti maður Finnlands, er aðaleigandi Kone sem er helst þekkt fyrir að framleiða lyftur og rúllustiga.

Ingvar Haraldsson
Antti Herlin, ríkasti maður Finnlands.
Aðsend mynd

Antti Herlin, ríkasti maður Finnlands, er fæddur árið 1956. Hann er aðaleigandi finnsku fyrirtækjasamsteypunnar Kone sem er helst þekkt fyrir að framleiða lyftur og rúllustiga. Hjá Kone starfa 55 þúsund manns í 60 löndum.

Ættin stýrt Kone í 94 ár

Yfirráð yfir Kone hafa gengið mann af manni í fjórar kynslóðir í Herlin-ættinni. Langafi Antti, Harald Herlin keypti Kone árið 1924. Heikki H. Herlin, afi Antti, tók við stjórnartaumunum í félaginu árið 1932 og stýrði því fram til ársins 1964. Þá færðust völdin í Kone til Pekka Herlin, föður Antti, sem hélt um og stýrði félaginu til ársins 1996, en þá tók Antti við sem forstjóri. Harald tókst að nútímavæða Kone og gera að einu af stærstu fyrirtækjum Finnlands. Hluti af stríðsskaðabótum finnskra stjórnvalda eftir seinni heimsstyrjöldina til Sovíetríkjanna var greiddur með vörum frá lyftum og krönum frá Kone. Eftir að stríðsskaðabæturnar höfðu verið greiddar upp héldu Sovétríkin áfram að kaupa vörur frá Kone. Stóra stökkið í sögu Kone var árið 1968 þegar það keypti sænska lyftuframleiðandann ASEA, sem var þónokkuð stæra félag en Kone. Með kaupunum varð fyrirtækið stærsti lyftuframleiðandi í Norður-Evrópu. Á síðustu áratugum hefur fyrirtækið keypt upp fjölmörg fyrirtæki í lyftubransanum og tengdum greinum. Árið 2002 keypti Kone á ný fyrirtæki sem var stærra en það sjálft, finnsku fyrirtækjasamsteypuna Partek.

Systkinin snupruð

Eignarhaldið á Partek var þó skammlíft. Þegar fjölskyldufaðirinn Pekka féll frá árið 2003 kom í ljós að hann hafði arfleitt elsta soninn Antti einan að meirihluta í Kone. Þetta kom þremur yngri systkinum hans, Ilkka, Ilona og Niklas, í opna skjöldu, en Ilkka hafði sjálfur áhuga á að taka við rekstrinum. Eftir tveggja ára erfðadeilu var Kone skipt upp. Cargotec, sem byggði að stórum hluta á eignum Partek og framleiðir að mestu vélar og tæki fyrir flutningaskip, var fært í eigu yngri systkinanna. Antti fékk hins vegar að halda megninu af Kone eftir sjálfur. Ilkka og Iona eru bæði milljarðamæringar en þriðji bróðirinn, Niklas féll frá á síðasta ári, 53 ára að aldri.

Stórtækur nautgripabóndi

Antti nam búfræði og nautgriparækt í Bandaríkjunum um hríð á sínum yngri árum án þess að útskrifast með gráðu. Hann hefur þó nýtt þekkingu sína á búfjárrækt því í dag ræktar hann Hereford og Aberdeen Angus nautgripi á búgarði fjölskyldunnar í Finnlandi. Antti hefur fengið tugi milljóna í landbúnaðarstyrki á ári, líkt og aðrir finnskir nautgripabændur, sem hefur farið öfugt ofan í margan Finnann. Þá var hann lengi vel formaður samtaka finnsks iðnaðar.

Antti Herlin

  • Aldur: 62 ára
  • Auðævi: 470 milljarðar króna
  • Uppruni auðsins:
  • Lyftuframleiðandinn Kone
  • 514. ríkasti maður heims

Nánar er fjallað um ríkustu menn Norðurlandanna í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: H&M Auðmenn Stefna Persson