Skuldatryggingaálag íslensku bankanna mun verða að lágmarki 100 til 150 punktum hærra en álagið á íslenska ríkinu, svo lengi sem efasemdir eru um að Seðlabankinn geti sinnt hlutverki sínu sem lánveitandi til þrautavara, segir í greiningu RBS á íslenska bankakerfinu.

Í skýrslu Credit Sights kemur fram sú skoðun að íslenska bankakerfið standi traustum fótum en samt sem áður hvílir á því meiri áhætta en gengur og gerist í Evrópu.

Sem kunnugt er hefur skuldatryggingaálag íslensku bankanna lækkað umtalsvert síðustu vikur og segir Credit Sights það nú vera í meiri takt við raunveruleikann en áður.

Leiddar eru að því líkur að skuldatryggingaálag bankanna muni haldast stöðugt og gert er ráð fyrir að það geti lækkað enn frekar þó að líklegt sé að sú lækkun verði ekki jafn hröð og á síðustu vikum.

Credit Sights bendir þó á að skuldatryggingaálag íslensku bankanna sé orðið að einhvers konar loftvog á markaðnum og því verði það næmt fyrir almennum hreyfingum á skuldatryggingaálögum fjármálafyrirtækja.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .