„Það er gaman að kynnast fyrirtækinu eftir það ástand sem hefur verið enda Isavia ein af burðarstoðum ferðaþjónustunnar. Það er því frábær tímapunktur að koma inn núna þegar við förum í það átak að koma hjólum ferðaþjónustunnar aftur í gang og fáum nýtt og kraftmikið fólk til starfa," segir Ingibjörg Arnarsdóttir, nýr framkvæmdastjóri fjármála og mannauðs hjá Isavia.

„Ég var einmitt nýbyrjuð hjá Valitor þegar hrunið kom og kynntist ég þar af leiðandi fyrirtækinu einstaklega vel. Ég var þar í átta ár og fékk að snerta á mjög fjölbreyttum verkefnum og læra mikið enda breyttist félagið mikið á þessum tíma. Þar áður var ég hjá Glitni en eins og margir á þessum tíma stoppaði ég stutt við þar."

Ingibjörg er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum en kom upp á land til að fara í Verzlunarskóla Íslands og síðan í viðskiptafræði í HÍ.

„Eftir það flyt ég til Bretlands með manninum mínum, Ólafi Þór Gylfasyni eiganda MMR, sem bauðst vinna þar úti. Þar starfaði ég í fjögur ár sem ráðgjafi, sem var mikil og góð reynsla enda mikil harka í atvinnulífinu þarna úti. Maður þurfti að læra að standa á sínu. Skipulag fyrirtækja hérna heima er mun flatara en í Bretlandi tók ég eftir, við erum kannski meira sveitafólk og óhræddari við að fara að tala beint við forstjórana. Síðan fór ég í mastersnám í London áður en við snerum aftur heim," segir Ingibjörg.

„Við búum nú í Garðabænum með tvö börn, 17 ára stelpu og 14 ára strák, en ég er mikil Eyjakona og við förum reglulega heim til Eyja allt árið um kring. Ég finn mikinn styrk í að hafa orðið vitni að þeim samtakamætti og stolti sem einkenndi samfélagið á árunum eftir gos þegar fólkið reis undir ótrúlegum áskorunum til að byggja upp samfélagið á ný, líkt og við Íslendingar höfum svo oft gert í gegnum árin. Krakkarnir njóta sín líka vel í Eyjum, og svo kenndi ég þeim það lykilatriði að spranga, sem kannski margir foreldrar myndu ekki leyfa í dag en krökkunum verður ekki meint af því að upplifa frelsi og taka ábyrgð."

Ingibjörg nýtur frítíma sinn mikið í hreyfingu og samverustundir með fjölskyldunni. „Ég hleyp og hjóla aðeins, en sundið er mitt uppáhalds. Ég æfði lengst af sund þegar ég var stelpa og byrjaði aftur fyrir einhverjum árum. Þegar það er hægt þá vakna ég um sex á morgnana og fer og syndi nokkra kílómetra. Það gefur mér mikið upp á heilsuna og góða skapið, og svo er gott að skipuleggja verkefni dagsins í kollinum á meðan. Síðan hefur mér fundist frábært að kynnast föstu gestunum í sundlauginni á morgnana, og svo nýjum sundlaugum á ferðalögum um landið."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .