„Það er mjög einfalt að kaupa eða selja bíl, þú getur gert það allt saman í tölvunni hjá þér, en þannig virkar það ekki fyrir fasteignir,“ segir Kjartan Hallgeirsson, formaður Félags fasteignasala. Spurður hvort það þurfi að vera svo mikið flóknara að selja fasteign en bíl, segir hann stutta svarið vera nei.

„Það sem þarf þó að tryggja er tímaröðin. Þegar þú þinglýsir kaupsamningi þá þarf að tryggja að það sé ljóst í hvaða tímaröð hann fór inn á deginum. Ef það væri annar kröfuhafi að gera fjárnám eða eitthvað, sem dæmi, þá þarf að vita hvort það kom á undan eða eftir. Þar af leiðandi skiptir tímaröðin svo miklu máli. Fasteignasalinn ber ábyrgð á því að rétt sé að þessu staðið, það er stóra málið.“

Ekki stærsti hluti vinnunnar
Kjartan segir hugmynd e-fasteigna góðra gjalda verða, en úr ýmsum flækjum þurfi að leysa áður en hún geti komið fyllilega til framkvæmda.

„Þegar þessar rafrænu þinglýsingar fara í gegn og þessi persónuskilríki verða í lagi – sem er auðvitað ekki komið, og verður ekki komið fyrir áramót, held ég – þá býður það kannski upp á einhverja miðlun.“

Hugmyndin sé þó ekki ný af nálinni, og í sjálfu sér sé skjalagerðin minnsti hlutinn af vinnu fasteignasala. „Vinnan felst í að taka eignina í sölu, sýna hana, vera í samskiptum við kúnnann og svo framvegis. Hitt er ekki stærsti hlutinn af heildarvinnunni og verður vonandi einfaldara fljótlega með framþróun tölvutækninnar.“

Þá segir Kjartan áfram þurfa aðkomu fasteignasala til að útbúa ýmis skjöl, þótt flýta megi fyrir þeirri vinnu upp að einhverju marki.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .