Helstu lykilstarfsmenn bandaríska fjármálafyrirtækisins Goldman Sachs vilja ekki fá greidda bónusa fyrir störf sín á þessu ári.

Samkvæmt Dow Jones-fréttaveitunni eru þeir þar með að neita sér um að fá greiddar tugi milljarða Bandaríkjadala ofan á árslaun sín.

Um  er að ræða sjö helstu stjórnendur Goldman Sachs en hermt er að þeir hafi tekist á um málið undanfarna mánuði.

Á dögunum báðu þeir nefnd bankans sem ákvarðar launabónusa að hún myndi ekki greiða neina út til þeirra. Beiðnin var samþykkt á sunnudag.

Undanfarin ár hafa margir þungavigtarmenn í fjárfestingabankageiranum þegið stjarnfræðilega launabónusa fyrir störf sín.

Í fyrra fékk til að mynda Lloyd Blankfein, framkvæmdastjóri Goldman Sachs, greiddar tæpa 70 milljónir dala í peningum og hlutabréfaívilnunum fyrir störf sín hjá bankanum. Blankfein og félagar hans í æðstu stjórn Goldman verða þó ekki á flæðiskeri staddir þrátt fyrir að þiggja enga bónusa í ár þar sem að hver og einn þiggur 600 þúsund dali í grunnlaun á ári.

Hin mikla kreppa sem ríkt hefur á fjármálamörkuðum hefur meðal annars beint kastljósinu að ofurlaunum bankamanna og hefur gagnrýnin umræða átt sér stað um hvort að slík laun séu réttlætanleg og æskileg.

Ekki er ljóst hvort að sambærileg fjármálafyrirtæki muni fylgja í kjölfar Goldman Sachs. Dow Jones hefur eftir talsmönnum Morgan Stanley og Merrill Lynch að engar ákvarðanir hafi verið teknar enn um bónusgreiðslur þessa árs.