MP banki hefur stofnað nýtt eignaleigusviðog Kjartan Georg Gunnarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri þess. Að auki er búið að ráða fjóra aðra fyrrverandi starfsmenn SP-Fjármögnunar, sem koma til með að starfa á nýja eignaleigusviðinu. Um er að ræða nýtt svið innan MP banka sem mun bjóða fjölbreyttar lausnir í fjármögnun bíla og atvinnutækja fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

Kjartan mun stýra uppbyggingu þessarar starfsemi sem markaðssett verður síðar á þessu ári. „Ég er afar spenntur að takast á við að setja á laggirnar þriðja eignaleigufyrirtækið. Ég er búinn að vera í 26 ár í þessum eignaleigubransa og stýrði SPFjármögnun í tæp 17 ár. Mér líst vel á MP banka og það sem þeir eru að gera,“ segir hann. Kjartan starfaði sem framkvæmdastjóri SP-Fjármögnunar frá stofnun félagsins árið 1995 þar til það sameinaðist Landsbankanum árið 2011. Fyrir þann tíma starfaði Kjartan meðal annars sem framkvæmdastjóri Féfangs sem einnig starfaði á eignaleigumarkaði. Eignaleiga er miðlungslöng fjármögnun en algengast er að lánað sé til þriggja til sjö ára. Kjartan segir sína reynslu vera þá að fjármögnunarleigan skiptist jafnt milli eintaklinga og fyrirtækja. Eignaleigusviðið heyrir að fullu undir starfsemi MP banka og verður til húsa í Ármúla 15.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.