Gagnrýni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á störf Seðlabankans í tengslum við skuldaleiðréttinguna og hugsanleg fjölgun seðlabankastjóra úr einum í þrjá ásamt annarri gagnrýni á störf bankans úr röðum stjórnarliða hefur valdið ólgu á meðal starfsmanna bankans. Þeirri óttist m.a. að tilburðir séu til þess að færa bankann aftur til fyrra horf, þ.e. fyrir hrun. Í Kjarnanum í dag segir að starfsfólk Seðlabankans sé upp til hópa mjög sárt vegna viðbragða forsætisráðherra og fleiri og telji þau ómakleg. Lítil stemning sé fyrir því að vinna aftur í álíka umhverfi og tíðkaðist í seðlabankanum fyrir hrun.

Kjarninn segir lykilstarfsmenn innan bankans á meðal þeirra starfsmanna sem íhugi að segja starfi sínu lausu vegna væringanna en aðrir ætli að bíða og sjá hvað verður.

Þá segir í umfjöllun Kjarnans um Seðlabankann að gagnrýni á hann komi úr fleiri áttum. Rifjað er upp að þeir Jón Helgi Egilsson, fulltrúi Framsóknarflokks í bankaráði Seðlabankans, og Ragnar Árnason, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hafi gagnrýnt bæði seðlabankastjóra og viðbrögð við veitingu undanþága frá gjaldeyrishöftum og peningastefnu bankans. Heimildamenn Kjarnans segjast furða sig á framgöngu bankaráðsmannanna og njóti þeir ekki lengur trausts á meðal starfsmanna bankans þar sem hlutverk þeirra eigi fyrst og síðast að snúast um að tala fyrir hagsmunum bankans og verja starfsmenn hans út á við.