Lykilstarfsmenn Nova keyptu í desember 11% hlut í Nova með nýtingu kauprétta í félaginu. Þann 16. desember síðastliðinn var hlutafé í Platínum Nova, móðurfélagi fjarskiptafyrirtækisins Nova, aukið um tæpar 557 milljónir hluta til að mæta útgefnum kaupréttum stjórnenda Nova. Að sögn Gísla Vals Guðjónssonar, stjórnarmanns í Platínum Nova og Nova, var greitt fyrir bréfin með reiðufé. Hann sagði kaupverð hlutanna trúnaðarmál, en kaupréttasamningarnir voru gerðir á árunum 2017 og 2018.

Meðal stjórnenda Nova sem eignuðust hluti í Platínum Nova voru Margrét Björk Tryggvadóttir forstjóri auk framkvæmdastjórnar Nova. Auk hlutafjáraukningarinnar keyptu stjórnendur hluti í Platínum Nova af Nova Acquisition Holding ehf., sem er í eigu bandaríska framtakssjóðsins Pt Capital. Sjóðurinn keypti helmingshlut Novator í Nova á síðasta ári og á nú ráðandi hlut í fjarskiptafyrirtækinu á móti 11% hlut stjórnenda. Þar af á Margrét tæp 4,3% beint og í gegnum eignarhaldsfélagið M&M Partners ehf.

„Stjórnendur eru að koma inn í hluthafahóp félagsins með myndarlegum hætti sem sýnir trú þeirra á vegferð félagsins. Þarna eru eigendur og lykilstarfsmenn að tvinna hagsmuni sína saman og búa sig undir komandi tíð,” segir Gísli Valur.

Degi eftir hlutafjáraukninguna, þann 17. desember 2021, var samþykkt á hluthafafundi Platínum Nova að hlutafé félagsins yrði lækkað um tæpa 5,7 milljarða hluta á genginu 1,09 krónur á hlut og voru því greiddir samtals 6,2 milljarðar króna til hluthafa. Hlutafjárlækkunin var framkvæmd í kjölfar sölu Nova á óvirkum fjarskiptainnviðum fyrr á árinu til sjóða í stýringu Digital Colony.

Miðað við 11% eignarhlut stjórnenda í aðdraganda hlutafjáraukningarinnar má gera ráð fyrir að Platínum Nova hafi greitt þeim 682 milljónir króna fyrir sína hluti, þar af tæpar 267 milljónir króna til Margrétar. Þar sem kaupverð hlutanna er óuppgefið er þó ekki hægt að segja til um hreinan ágóða stjórnenda af sölunni.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Sagt frá umtalsverðum bónusgreiðslum til stjórnenda Alvotech.
  • Rætt er við Jens Þórðarson, nýjan framkvæmdastjóra Geo Salmo.
  • Rætt við Snorra Halldórsson sem rekur fyrirtæki vestanhafs sem framleiðir m.a. gæludýrafóður sem nýverið fékk viðurkenningu hjá hinu þekkta tímariti People.
  • Yngvi Tómasson, framkvæmdastjóri Leikbreytis, ræðir um hvernig félagið „breytir leiknum“ með notkun stafrænna lausna.
  • Ítarleg viðtal við Magnús Harðarson, forstjóra Kauphallarinnar.
  • Farið er yfir stöðu almennra fjárfesta á hlutabréfamarkaði.
  • Týr fjallar um áramótaskaupið.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað sem og Óðinn sem fer yfir bæjarmálin á Seltjarnarnesi.