*

laugardagur, 20. júlí 2019
Innlent 22. mars 2018 06:01

Lykilstarfsmenn kaupa Marorku

Félagið er ekki sloppið fyrir horn en allt verður gert til þess að svo megi verða að sögn nýs framkvæmdastjóra Marorku.

Ingvar Haraldsson
Gunnar Stefánsson, Darri Gunnarsson, Haraldur Orri Björnsson lykilstjórnendur Marorku ætla að koma fjárhagi félagsins á réttan kjöl.
Haraldur Guðjónsson

Lykilstarfsmenn Marorku hafa fest kaup á íslenskri starfsemi félagsins, Marorku ehf. og dótturfélagi Marorku í Singapúr af þrotabúi móðurfélags Marorku. Móðurfélagið Marorka International A/S, skráð í Danmörku, var tekið til gjaldþrotaskipta í byrjun mars að beiðni stjórnar félagsins.

Nýir eigendur eiga eftir að semja við starfsmenn, kröfuhafa og fjárfesta um næstu skref að sögn Darra Gunnarssonar, nýs stjórnarformanns og framkvæmdastjóra í Marorku. Það ferli mun að líkindum taka nokkrar vikur að sögn Darra. Ganga þarf frá öllum fyrirvörum áður en meðfjárfestar starfsmanna munu leggja félaginu til fé. Darri hefur þar til nú verið þjónustustjóri Marorku.

Mikil vinna fram undan

„Það er enn heilmikil vinna fram undan en það var gríðarlegur áfangasigur að ná félaginu úr danskri lögsögu,“ segir Darri. Danska þrotabúið var í stöðu til að fara fram á gjaldþrot íslenska félagsins að sögn Darra.

„Það verður öllu teflt til þess að bjarga verðmætum í félaginu,“ segir Darri. „Félagið mun halda áfram að sinna sínum viðskiptavinum og við finnum ekkert nema skilning og velvilja frá þeim,“ segir hann.

Meirihlutaeigandi félagsins, þýski framtakssjóðurinn Mayfair, var ekki tilbúinn að styðja frekar við félagið fjárhagslega og því fór félagið í þrot. Kjarninn greindi fyrst frá því í lok febrúar að félagið væri á leið í greiðslustöðvun.

Erfiður markaður og dýr yfirstjórn

Marorka selur orkustjórnunarkerfi og hugbúnað í stór skip. Lágt verð á skipaflutningum, sérstaklega, og lágt olíuverð frá árinu 2014 hefur gert fyrirtækjum tengdum skipaflutningum erfitt fyrir. Þá hefur rekstrarkostnaður félagsins aukist töluvert, ekki síst kostnaður við yfirstjórn félagsins. 

Fjáfesting lífeyrissjóða afskrifuð

Hluthafar Marorku lögðu félaginu til 4 milljónir evra í hlutafé árið 2016 og 4,2 milljónir evra árið 2017, sem samtals samsvarar milljarði króna. Fimm milljarða framtakssjóðurinn Edda, að mestu í eigu íslenskra lífeyrissjóða, var næststærsti hluthafi félagsins og átti 20% hlut í lok árs 2016. Sjóðurinn tók ekki þátt í hlutafjáraukningu á síðasta ári og afskrifaði fjárfestingu sína í Marorku að fullu. Edda keypti hlut í Marorku sumarið 2015 og nemur fjárfestingin hundruð milljónum króna.

Fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Marorka Edda Mayfair Darri Gunnarsson