Helstu lykilstarfsmenn Opin Kerfi Group keyptu samtals 2,33% hlutafjár félagsins á föstudaginn að því er fram kemur í tilkynningu í Kauphöllinni í dag. Heildarfjárhæð kaupanna nemur 161 m.kr. en þau fóru öll fram á genginu 23 sem er meðalverð viðskipta með bréf félagsins síðustu 5 daga. Í Hálffimm fréttum KB banka kemur fram að félagið veitir kaupendunum sölurétt á móti keyptum hlutum sem ver þá fyrir hugsanlegu tapi vegna kaupanna.

Þar er einnig bent á að hlutabréf Opin Kerfi Group hafa tekið vel við sér síðustu daga og nemur hækkun þeirra 13,6% í mánuðinum, þar af 13,1% síðustu 10 daga. Velta með bréf félagsins í Kauphöllinni í dag nam 422 milljónum sem skýrist að verulegu leyti af viðskiptum tengdum kaupunum. Gengi Opin Kerfi Group endaði í 25 í lok dagsins og hefur félagið því hækkað um 31,6% frá byrjun ársins.