Starfskjaranefnd Kaupþings vissi að ýmsir af háttsettum stjórnendum bankans væru komnir í fjárhagsvandræði vegna lækkunar á gengi hlutabréfa í bankanum áður en skilanefnd tók hann yfir í október 2008. Stjórnendurnir höfðu fengið tugmilljarða krón að láni hjá bankanum til að kaupa hlutabréf í honum. Nefndin fól því Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi bankastjóra Kaupþingssamstæðunnar, að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmannanna á lánunum svo þeir gætu einbeitt sér að rekstri bankans.

Þetta er á meðal þess sem kom fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli slitastjórnar Kaupþings gegn Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings í Lúxemborg.

Í dóminum kemur fram að á fundi í stjórn Kaupþings dagana 25. og 26. september 2008 hafi greinargerð frá starfskjaranefnd bankans verið rædd. Þar hafi komið fram að nefndin hafi haft áhyggjur af því að ýmsir háttsettir stjórnendur innan bankans ættu í verulegum fjárhagsörðugleikum vegna lækkunar virði hlutabréfa í bankanum. Nefndin hafi talið að bæta yrði úr ástandinu til að tryggja að lykilstarfsmenn gætu einbeitt sér að starfsemi bankans á erfiðistímum.

Magnús hafði um þetta leyti fengið 3,1 milljarða króna lánaða hjá Kaupþingi til að kaupa hlutabréf í bankanum. Hann var í morgun úrskurðaður til að greiða þrotabúi bankans til baka rúmar 717 milljónir króna af lánunum. Verðmæti hlutabréfaeignar hans nam tæpum 2,6 milljörðum króna 25. september árið 2008 og hefði hann getað staðið við skuldbindingar sínar, að því er fram kemur í dómi Héraðsdóms. Dóminum hefur verið áfrýjað.

Persónulegar ábyrgðir felldar niður

Fram kemur í dómi Héraðsdóms að á stjórnarfundi 25. september hafi stjórn Kaupþings samþykkt að fela Hreiðari að fella niður persónulega ábyrgð starfsmanna þannig að ábyrgð þeirra myndi takmarkast við þær tryggingar sem lagðar hefðu verið fram til greiðslu lána. Á þeim tíma hafi tryggingarstaða starfsmanna bankans verið góð þótt verðmæti veða hafi lækkað vegna lækkunar á gengi hlutabréfa bankans.

Þá kemur fram að lykilstarfsmenn bankans hafi átt hlutabréf í Kaupþingi sem ígildi lífeyrissjóðs á meðan þeir störfuðu hjá bankanum og máttu þeir ekki selja þau á meðan þeir væru þar við störf. Útfærsla á því fyrirkomulagi hafi hins vegar verið í höndum forstjóra bankans.

Þegar halla tók undan fæti höfðu margir áhyggju af stöðunni og höfðu þeir samband við Hreiðar Má vegna þessa. Ákveðið var að nýta ekki ekki veðköll vegna bréfanna. Lykilstarfsmönnum hafi verið gerð grein fyrir því að kaup þeirra í bankanum væri langtímafjárfesting og að ekki hafi verið ætlast til að þeir seldu bréfin á meðan þeir væru við störf.