Nýtt þjónustufyrirtæki á upplýsingatæknimarkaði, Titan ehf, mun hefja rekstur innan fárra vikna og er stefnt að hraðri uppbyggingu á næstu misserum. Meðal stofnenda eru Örvar Sigurðsson framkvæmdastjóri Equant á Íslandi, Hans Pétur Jónsson, framkvæmdastjóri sölusviðs Opinna kerfa og Benedikt Gröndal, forstöðumaður samskiptalausna Opinna kerfa, sem koma til liðs við Titan seinna í haust.

Í fréttatilkynningu kemur fram að stefnt er að aðkomu öflugra fjárfesta að hinu nýstofnaða fyrirtæki sem einnig verður í eigu starfsmanna.

Til að byrja með mun fyrirtækið einkum einbeita sér að söluráðgjöf og þjónustu á sviði IP tækninnar. Stefna forsvarsmenn Titans að því að færa út kvíarnar mjög hratt og bjóða íslenska markaðnum upp á alhliða upplýsingatækniþjónustu og hefur fyrirtækið tryggt sér viðskiptasamninga sem veita því umboð til að bjóða vörur frá Cisco, HP, Sun og fleiri þekktum framleiðendum á mjög samkeppnishæfu verði. Titan býður einnig þjónustu þeim erlendu fyrirækjum á Íslandi sem leita til Orange Business Solution (áður Equant) og hefur verið gerður endursölusamningur við Símann því tengdur. Flest stærstu fyrirtækja heimsins nýta sér þjónustu Orange Business Solution en það rekur stærsta IP VPN net í heiminum og er með um 29 þúsund starfsmenn í 166 löndum.

Auglýst verður eftir starfsfólki á næstunni og stefnir Titan að því að vera með um 50 sérfræðinga á sínum snærum innan tveggja ára. Ætlar fyrirtækið að marka sér sérstöðu með því að bjóða upp á bestu fáanlega þjónustu og verður því kappkostað að laða að fyrirtækinu hæfileikaríkasta starfsfólkið á íslenska upplýsingatæknimarkaðinum.