Markaðsverðmæti 1,4% eignahlutar í Högum sem lykilstjórnendur fyrirtækisins hafa fengið gefins frá Eignabjargi, dótturfyrirtæki Arion banka, nemur rúmum 286 milljónum króna. Viðskiptablaðið greindi frá því í umfjöllun sinni snemma í desember síðastliðnum að verðmæti hlutarins geti numið á bilinu 188 til 230 milljónum króna. Það var fyrir útboðið í Högum og miðað við hugsanlegt lægsta og hæsta gengi í útboði með hlutabréf fyrirtækisins fyrir skráningu í Kauphöll.

Munurinn á verðmæti eignahlutarins þá og markaðsgengi hlutabréfa Haga nú nemur á bilinu 56 til 98 milljónum króna. Um svokallaðan pappírshagnað er að ræða en samkvæmt samkomulagi lykilstjórnenda Haga eru söluhömlur á hlutunum til 30. júlí í sumar.

Gengi hlutabréfa í Högum voru skráð á genginu 13,5 krónur á hlut við skráningu á hlutabréfamarkað 16. desember í fyrra. Það hefur hækkað um 24% síðan þá og stendur í 16,75 krónum á hlut.

Stjórnendurnir fimm eru Finnur Árnason, forstjóri Haga, Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, Lárus Óskarsson, framkvæmdastjóri Aðfanga, og Kjartan Már Friðsteinsson, framkvæmdastjóri Banana.