Lögfræði- og regluvörslusvið Nýja Glitnis hefur, að beiðni bankastjóra og undir stjórn regluvarðar, sett á fót sérstaka fræðslu fyrir framkvæmdastjóra og lykilstarfsmenn bankans um laga- og regluumhverfi á fjármálamarkaði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýja Glitni en þar kemur fram að fræðslan er liður í að starfsmenn standist fyllstu hæfiskröfur og hafi þekkingu á þeim lagaramma sem gildir um fjármálafyrirtæki.

„Með því móti er bankinn að tryggja að hann hafi yfir að ráða öflugu og afar hæfu stjórnendateymi á hverjum tíma,“ segir í tilkynningunni.

„Þá gerir bankinn einnig kröfu um að fram fari hæfismat þegar nýir lykilstjórnendur hefja störf við bankann.“

Þá kemur fram að framkvæmd hæfismatsins, er á forræði regluvarðar. Regluvörður boðar viðkomandi til fundar innan mánaðar frá því viðkomandi hefur störf í bankanum. Á fundinum þarf starfsmaður að sýna fram á staðgóða þekkingu á regluverki á fjármálamarkaði og starfsreglum bankans, en með fundarboðinu fylgir listi yfir umræðuefni sem nauðsynlegt er að starfsmaður kunni skil á.

Að fundinum loknum mun regluvörður leggja mat á hvort viðkomandi hafi sýnt fram á nægilega þekkingu á þeim lögum og reglum sem gilda fjármálamarkaði og hvort viðkomandi starfsmaður teljist hæfur í starfið.   ,,Fyrirmynd þessa hæfismats er sótt til Fjármálaeftirlitsins, en æðstu stjórnendur fjármálafyrirtækja þurfa að fara í gegnum slíkt mat sem er nokkuð strangt og tekur á því helsta í regluverki á fjármálamarkaði og ýmsum sértækum reglum er varða bankastarfsemi,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Nýja Glitnis í tilkynningunni.

„Þekking á helstu leikreglum á fjármálamarkaði skiptir afar miklu máli. Krafan um hæfismat lýtur þannig að trúverðugleika stjórnenda og lykilstarfsmanna bankans auk krafna um faglegt hæfi viðkomandi, þ.e. að menntun, þekking og starfsferill sé með þeim hætti að tryggt sé að hann geti gegnt stöðu sinni. Hæfismatið er enn einn liður í því að tryggja undirstöður fyrir nýjan banka og skapa traust. Við höfum þegar aukið gagnasæi og birt helstu reglur bankans á vefsvæði hans.”