Seðlabanki Íslands leggst alfarið gegn frumvarpi Lilju Mósesdóttur, formanns Viðskiptanefndar Alþingis, um að breyta lögum um fasteignaveðlán á þá leið að lánastofnanir geti aðeins gengið að húsnæðinu sem lánað var til kaups á.

Þeir sem skuldi í húsnæði sínu geti því skilað lyklunum að íbúðinni ef þeir geta ekki borgað lengur af henni.

Viðmælendur Viðskiptablaðsins innan bankakerfisins kölluðu frumvarp Lilju „lyklafrumvarpið“ í samtölum við blaðamann. Forsvarsmenn endurreistu bankanna hafa mótmælt þessu frumvarpi Lilju eindregið og sagt það geta haft alvarleg áhrif á eignasafn bankanna.

Í umsögn Seðlabanka Íslands um frumvarpið segir m.a.: „Það kann að vera réttmætt að setja lög með það að markmiði að takmarka hversu langt lánastofnanir geta gengið í því efni að ganga að ævitekjum skuldara sem þeir hafa lánað óvarlega til. Seðlabankinn telur hins vegar að fyrirliggjandi frumvarp geti haft umtalsverð skaðleg efnahagsleg áhrif og feli því ekki í sér heppilega lausn á ofangreindu vandamáli.“

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .