Áramótin marka kaflaskil í 77 ára sögu Málmsteypu Þorgríms Jónssonar, elsta starfandi endurvinnslufyrirtækis landsins en félagið hefur var stofnað á sjálfstæðisárinu 1944. Jón Þór Þorgrímsson, sem hefur unnið hjá félaginu frá árinu 1986, mun láta af störfum sem framkvæmdastjóri og Sigurður Orri Steinþórsson tekur við keflinu en hann hefur starfað sem rekstrarstjóri frá síðustu áramótum.
„Ég tek við góðu búi af frábæru fólki. Það eru mikil tækifæri til staðar að byggja á þessum trausta grunni og að efla íslenskan iðnað enn frekar,“ segir Sigurður Orri. Fyrirtækið, sem framleiðir gatnagerðarefni líkt og niðurföll, rista og brunnlok, ásamt því að sinna sérverkefnum fyrir stóriðjuna, var selt til framtakssjóðsins Umbreytingu í stýringu hjá Alfa framtaki árið 2019.
Sigurður Orri stundaði nám við vélaverkfæði í Danmörku og starfaði í kjölfarið á skipasmíðastöð í Óðinsvé í tvö ár. Eftir að hann snéri heim til Íslands árið 1994 hóf hann störf hjá Marel og vann þar í þrettán ár, síðast sem framleiðslustjóri.
„Ég var hjá Marel á mesta vaxtarskeiðinu þar sem að allt var leyfilegt og ekkert var bannað svo lengi sem það bar árangur. Skemmtilegustu tímarnir hjá fyrirtækjum eru oft þegar þau eru að vaxa og dafna þó ég efi ekki að það sé enn þá gaman að vinna hjá Marel í dag.“
Sigurður Orri skipti um vettvang árið 2007 og starfaði hjá Orkuveitunni í tíu ár, fyrst á framleiðslusviði en síðar sem Fagstjóri hitaveitu hjá Veitum. Áður en hann flutti sig yfir til Málmsteypu Þorgríms Jónssonar vann hann í þrjú ár sem viðskiptastjóri á stórnotendasviði hjá Vatn og Veitum, dótturfélagi Fagkaupa.
Sigurður Orri er í sambúð með Ragnheiði Guðmundsdóttur, hjúkrunarfræðingi sem starfar sem deildarstjóri á Landspítalanum. Þau eiga hvort um sig þrjú börn úr fyrra sambandi.
Auk þess að vera mikill áhugamaður um skot- og stangveiði, finnst Sigurði Orra gaman að ferðast og ganga um landið. Hann fer árlega með fjölskyldu og vinum í nokkurra daga göngu. Hópurinn velur nýjan stað hverju sinni og var förinni heitið í Lónsöræfi í sumar. Í haust fór Sigurður Orri í sína fyrstu utanlandsferð í nokkurn tíma og gekk í kringum Mont Blanc með góðum hópi vina.
Nánar er rætt við Sigurð Orra í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .