Lýðræði og góðir stjórnsýsluhættir eru á undanhaldi víða um heim og þeim ríkjum fjölgar sem horfa til Rússlands og Kína í leit að fyrirmyndum um hvernig treysta megi miðstýrð völd núverandi valdakjarna og gera umbætur á efnahagskerfinu án það verði til þess innleiða borgaralegt frelsi. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu bandarísku hugveitunnar Freedom House um stöðu frelsis í þrjátíu löndum sem kom út í gær. Sama dag og George Bush, forseti Bandaríkjanna, útlistaði frelsisáform bandarískra stjórnvalda á alþjóðavettvangi er hann ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna (SÞ).

Í skýrslunni, sem heitir Ríki á krossgötum, kemur fram að sá einræðiskapítalismi sem kínverski kommúnistaflokkurinn er frumkvöðull að kunni að verða að viðtekinn á 21. öldinni. Meðal þeirra ríkja sem hafa upplifað aukinn hagvöxt að undanförnu án þess að valdhafar dragi úr - jafnvel auki á - kúgun á borgaralegum réttindum eru Líbía, Túnis og Alsír. Jafnframt kemur fram að lýðræðisferli hafi verið lagt af með valdaránum hersins í bæði Taílandi og Bangladess.

Í skýrslunni er tekið fram að undanfarin tvö ár hafi ekki verið hægt að telja Rússland til lýðræðisríkja. Fram kemur að borgaralegt skipulag hafi greinilega verið skotmark stjórnvalda í valdatíð Vladímírs Pútín, forseta, og ástandið þar líkist meir því sem viðgengst í einræðisríkjum Mið-Asíu en því sem tíðkast í þroskuðum lýðræðisríkjum á Vesturlöndum.

Einnig hefur ástandið versnað í Íran í valdatíð Mahmoud Ahmadinejad, forseta landsins. Spilling er sögð hafa farið vaxandi en á sama tíma hafi klerkastjórnin færst í aukana þegar kemur að mannréttindabrotum.

George Bush, Bandaríkjaforseti, gerði frelsi að megininntaki í ræðu sinni á allsherjarþingi SÞ. Forsetinn tilkynnti um nýjar þvingunaraðgerðir gegn herforingjastjórninni í Búrma og sagði jafnframt að SÞ ættu beita sér í auknu mæli fyrir útbreiðslu frelsis. Hann kallaði eftir endurbótum á skipulagi mannréttindaráðs samtakanna. Hann gagnrýndi það fyrir að setja blinda augað að kíkinum þegar kæmi að ríkjum eins og Íran en á sama tíma væri ástand mála í Ísrael gagnrýnt í sífellu í ályktunum ráðsins.