Sex lífeyrissjóðir, sem samanlagt eiga 15% af hlutafé Símans, hafa gert alvarlegar athugasemdir við kaupréttaráætlun sem stjórn Símans hyggst leggja fyrir hluthafafund í fyrirtækinu sem haldinn verður á þriðjudaginn í næstu viku. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

Þar kemur fram að athugasemdirnar lúti að nokkrum þáttum áætlunarinnar en alvarlegasta gagnrýnin snúi að þeirri ákvörðun að allir starfsmenn muni geta keypt 600.000 krónur á ári í fimm ár á því gengi sem forstjóri fyrirtækisins, ásamt meðfjárfestum, keypti 5% hlut í fyrirtækinu í liðinni viku. Þá nam kaupverð hlutarins 1.330 milljónum króna sem jafngildir 2,5 krónum á hlut.

Þannig telja lífeyrissjóðirnir óeðlilegt að gengið sé fastsett með þessum hætti fimm ár fram í tímann, en taki ekki breytingum til samræmis við þróun markaðsverðs fyrirtækisins á tímabilinu.

„Þetta mál er í höndum hluthafa. Stjórnendur fyrirtækisins myndu hins vegar fagna því ef áætlunin næði fram að ganga. Við teljum hana bæði hófsama leið og skynsamlega til að tvinna saman langtímahagsmuni starfsmanna og fyrirtækisins,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans, í samtali við Morgunblaðið.