„Við lýsum yfir stuðningi við oddvitann og framboðslistann i heild,“ segir Óttarr Guðlaugsson, formaður Varðar-fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík.

Hann segir ekkert hæft í því að ræddar hafi verið hugmyndir um að Halldór Halldórsson oddviti viki sæti vegna slæms árangurs í skoðanakönnunum. Fréttir bárust af því í hádeginu að þessar hugmyndir yrðu ræddar á fundi Varðar í hádeginu í dag. Óttarr segir að um reglulegan fund hafi verið að ræða þar sem staða mála er rædd.

Skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar frá því í gær sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn fengi þrjá borgarfulltrúa kjörna. Óttarr viðurkennir að þetta sé slæm staða. „Ég get alveg tekið undir það að staðan mætti vera betri. En ég trúi því og treysti að þetta verði ekki útkoman upp úr kjörksösum enda eru það kjörkassarnir en ekki skoðanakannarnir sem skipta máli. En þetta segir okkur að við erum ekki að koma skilaboðum okkar og stefnumálum nægjanlega vel áleiðis og við því þarf að bregðast,“ segir Óttarr.