Aðalfundur Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur sem haldinn var í Iðnó 15. október 2018 lýsir yfir vonbrigðum með að skipulagsyfirvöld í Reykjavík og þar með talið borgarráð taki ítrekað ekki til greina athugasemdir íbúa miðbæjarins í deili- og skipulagsmálum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Fundurinn skorar á borgarráð að taka meira tillit til almennra og víðtækra athugasemda íbúanna enda sé það í anda þess íbúalýðræðis sem er yfirlýstur vilji borgarstjórnar.

„Mikil framkvæmdagleði ríkir nú í miðborg Rekjavíkur, hver stórbyggingin af annari rís um þessar mundir og miklar breytingar hafa orðið á rekstri og þjónustu. Íbúar miðborgar Reykjavíkur hafa lengi setið uppi með þá súru tilfinningu að fyrirhugaðar breytingar á nærumhverfi þeirra séu illa kynntar og að lítið tillit sé tekið til athugasemda þeirra finnist þeim framkvæmdirnar skerða hagsmuni sína og lífsgæði enda virðast engar reglur gilda um það hvernig bregðast skuli við athugasemdum við skipulagsbreytingum aðrar en þær að þeim skuli svarað," segir í tilkynningunni.